145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það er með dálítið blendnar tilfinningar í brjósti sem maður kemur til þings að þessu sinni, annars vegar með gríðarlega sterka stöðu í efnahagsmálum sem birtist okkur í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi, að innviðirnir eru að styrkjast, staða okkar til þess að gera betur í framtíðinni á svo mörgum sviðum að batna og það blasir við okkur að við erum að upplifa eitt lengsta hagvaxtarskeið seinni tíma hagsögu landsins, en hins vegar erum við enn í þeirri stöðu sem Alþingi að njóta óeðlilega lítils trausts frá þjóðinni.

Ég minnist þess að þegar ég kom til starfa á Alþingi á árinu 2003 var mér ofarlega í huga á þeim tíma hvers konar lykilstofnun þingið væri og hefði ávallt verið sem valdamesta stofnunin á grundvelli þeirrar stjórnarskrár sem við störfum eftir. Það er líka hér sem grunnurinn að stjórnarskránni var lagður, að sjálfstæði landsins, að fullveldinu, og svo margar stórar ákvarðanir sem hafa haft áhrif á þróun samfélagsins, á líf alls almennings í þessu landi og til framfara og bættra lífskjara fyrir þjóðina. Hér voru þessar ákvarðanir teknar. Rauði þráðurinn í svo mörgum af þeim framfaramálum sem ég er að nefna lá í því að þingið treysti betur fólki til að ráða sjálft sínum málum til lykta. Það er sama hvort við horfum til þess að í ár eru liðin 100 ár frá því að konur fengu kosningarréttinn, eins og við fögnuðum með eftirminnilegum hætti í sumar, eða rifjum upp önnur sjálfsögð framfaramál sem kannski þykja hálfeinkennileg í nútímasamfélagi eins og það að fram á níunda áratuginn var ekki frjálst útvarp á Íslandi. Við breyttum því hér. Það var ekki frjálst að selja bjór, hvorki að kaupa hann úti í búð né fá hann afgreiddan á veitingastað, fyrir einungis réttum 30 árum.

Afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu, bein þátttaka ríkisins í atvinnulífinu, voru líka fyrir tiltölulega skömmu síðan miklu meiri en þau eru í dag með rekstri skipafélags, rekstri verksmiðja af ýmsum toga, yfirgnæfandi þátttöku á fjármálamarkaði o.s.frv. Við tókum drjúgan hluta af tíunda áratugnum til að greiða úr því hvernig við vildum í raun afmarka hlutverk ríkisins gagnvart atvinnulífinu. Það gerðist ekki átakalaust, en ég tel að við höfum fengið mjög góða niðurstöðu í það.

Þessi mál er ég að nefna ásamt því að við höfum borið gæfu til þess á undanförnum áratugum að horfa til langs tíma við að reyna að tryggja ábyrga stjórn ríkisfjármálanna. Ég nefni þessi mál til umhugsunar fyrir okkur þegar kemur að þeirri stöðu sem þingið er í í dag og ég minntist á áðan, að fólki finnst ekki ástæða til að treysta okkur betur en raun ber vitni. Kannski stöndum við á þinginu frammi fyrir fleiri litlum og jafnvel stórum álitamálum sem bera það með sér að við erum ekki enn farin að treysta fólki til samræmis við það sem fólk telur að það eigi að fá að sjá frá þinginu. Við höfum mörg slík mál að mínu áliti.

Síðast í dag heyrðum við frá atvinnulífinu kallað eftir því að tryggingagjaldið yrði lækkað frekar. Það er í eðli sínu frelsismál. Þar er verið að biðja um að álögum verði létt frekar af atvinnulífinu til að þar geti hugmyndir fengið að blómstra, skjóta rótum, að þar finni menn kröftum sínum viðnám, geti ráðið til sín fólk og hrint hugmyndum í framkvæmd. Í eðli sínu er það frelsismál. En miklu fleiri frelsismál hafa líka verið rædd hér á undanförnum árum. Við ættum að halda áfram að ræða þau og skoða með þessa nálgun að leiðarljósi.

Má ég nefna það hér hvort við treystum fólkinu í landinu til að sækja áfengi í venjulegar verslanir eða ekki? Í mínum huga er það augljóst mál. Það eru röng skilaboð frá þinginu að treysta ekki fólki til þess að kaupa áfengi í venjulegum verslunum, að það þurfi opinbera starfsmenn til að afhenda slíka vöru yfir búðarborðið. Það eru röng skilaboð.

Í fjárlagafrumvarpinu sem var lagt fram á þingi í dag eru líka mál annarrar tegundar. Skattamál eru líka í eðli sínu frelsismál. Við skiljum meira eftir hjá fólki til að ráða sínum málum. Bæði á það við um atvinnulífið og launþegana í landinu sem fá strax á næsta ári að halda stærri hlut launatekna sinna í lok mánaðar en gilti á þessu ári og við höldum áfram á árinu 2017.

Niðurfelling tolla í framhaldi af afnámi vörugjalda er líka frelsismál. Það snýst um viðskiptafrelsi, það snýst um frelsi neytenda til að sækja vöru án óþarfaneyslustýringar af hálfu ríkisins. Á árum áður voru tollar á slíkar álögur stór hluti af ríkistekjunum en þetta hefur minnkað sem betur fer í gegnum árin, var komið niður í um 4% árið 1990 og í dag erum við með eftirhreyturnar af úreltu kerfi. 1% af ríkistekjunum er um 1600 tollar sem við erum að leggja á alls konar vörur, allt frá bíldekkjum yfir í barnakerrur, frá veiðivörum yfir í rafgeyma. Það eru óendanlega margir vöruflokkar sem er orðið tímabært að afnema vörugjöldin af. Það á við um húsbúnað og húsgögn og ég gæti lengi haldið áfram að telja þá upp. Reyndar held ég að enginn einn Íslendingar hafi yfirsýn yfir það á hvaða vörur við leggjum tolla og það er orðið tímabært að afnema þá. Þetta er frelsismál, mál sem er til vitnis um að við viljum efla viðskiptafrelsi í landinu, jafna samkeppnisstöðu fyrirtækjanna, verslunarinnar, koma versluninni í landinu á samkeppnisgrundvöll gagnvart umheiminum.

Eitt stærsta verkefni okkar í víðara samhengi er líka að tryggja að Ísland verði sá staður fyrir ungar kynslóðir sem eftirsóknarvert er að búa á. Heimurinn er allur að skreppa saman. Ekki bara tölvur og netvæðing valda því, hugur fólks er að breytast. Það hefur verið komið inn á það í ræðunum sem fluttar voru á undan þessari. Hugur unga fólksins leitar ekki bara út fyrir landsteinana. Hann getur náð til þess að búa á fjarlægum slóðum og það þykir raunhæft, sjálfsagt og jafnvel eðlilegt að flytjast búferlum hinum megin á hnöttinn. Þetta er allt að breytast. Þingið verður að taka tillit til þessara hluta í störfum sínum og ákvörðunum. Tollamálið er eitt lítið mál sem gerir það eftirsóknarverðara að búa á Íslandi og tryggir að verslun á Íslandi nýtur samkeppnislegra skilyrða til jafns við það sem gildir á Norðurlöndunum, enda er almenna virðisaukaskattsþrepið á Íslandi jafn hátt eða lægra en á við á Norðurlöndunum. Ekkert Norðurlandanna er með lægra almennt virðisaukaskattsþrep en við Íslendingar.

Ábyrgð í ríkisfjármálum verð ég líka að nefna hér. Þegar ég tala um frelsi og ábyrgð í ríkisfjármálum leitar hugurinn til manns sem við söknum af þinginu og féll frá fyrr á þessu ári. Pétur Blöndal, vinur okkar, er ekki með okkur hér til að fylgja þeirri umræðu eftir en ég er alveg viss um að hann kann að meta það þaðan sem hann horfir til okkar í dag að við höldum þeirri umræðu áfram á lofti. Það skiptir máli fyrir framtíðarkynslóðir landsins og framfarir í landinu.

Höfum það hugfast sem ég er hér að reyna að draga saman í nokkrum dæmum að kannski liggur það vantraust til þingsins, sem við upplifum, og þess sem við erum að gera hér í því að við erum ekki að senda þau skilaboð út til þjóðarinnar að við ætlum raunverulega að treysta fólki til að ráða sínum málum sjálft. Höfum þá um leið hugfast að einhver stærstu framfaraskrefin í okkar málum voru einmitt stigin þegar við sýndum það í verki að við færðum vald út til fólksins, til þess að það réði sínum málum í orði og æði.

Á þessu þingi verður áfram tekist á um ýmis áherslumál. Það er eðlilegt þegar við erum með flokkakerfið og flokkarnir sem kosnir eru hingað til þings og einstakir þingmenn með ólíkar áherslur. Við höfum þó leiðir til að útkljá þau mál samkvæmt þingsköpum.

Síðan eru líka önnur mál sem full ástæða er til að ætla að við getum náð samstöðu um. Ég ætla að nefna stjórnarskrána. Við höfum lagt í gríðarlega mikla vinnu við að rýna stjórnarskrána, það sem helst ætti að koma til álita að breyta í henni. Ég veit að það eru skiptar skoðanir um það hversu langt við ættum að ganga í því efni. Ég er hins vegar kominn til þessa þings alveg sannfærður um að ef raunverulegur vilji er til staðar hjá öllum þingflokkum getum við gert á stjórnarskránni markverðar breytingar sem skipta máli og eru til framfara fyrir þjóðina. Þær geta haft akkúrat þessi einkenni sem ég hef hér nefnt, að við ætlum að treysta fólki enn betur en við höfum gert fram til þessa til að ráða málum til lykta.

Ég ætla að nefna annað mál, opinber fjármál. Ég held að það skipti gríðarlega máli að við ljúkum því máli. Það kemur nú fram á þessu þingi, í þriðja sinn. Það er dæmi um verkefni sem allir flokkar hafa komið að og nú er tímabært að við leiðum það til lykta. Það er þá mál sem mundi sýna fram á að við ætlum að horfa til langs tíma og sýna ábyrgð í ríkisfjármálum. Það er kallað eftir því að jafna sveiflurnar. Það er ekkert lögmál að vextir á Íslandi séu jafn háir og raun ber vitni í gegnum tíðina eða jafn háir og raun ber vitni í dag. Það er ekki lögmál.

Við þurfum að leysa þætti sem snúa að vinnumarkaðnum, ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra sem lagði áherslu á það í ræðu sinni. Ég skynja vilja til þess hjá aðilum vinnumarkaðarins að gera grundvallarbreytingar þar. Afgreiðsla frumvarps til laga um opinber fjármál er snar þáttur í því að gera þessa breytingu og brúa gjána yfir til vinnumarkaðarins að þessu leytinu til.

Við höfum fleiri dæmi um mál þar sem við getum náð vel saman á þinginu. Alþjóðamálin koma þar upp í hugann, að taka höndum saman við þjóðina sem hefur sýnt svo áberandi að hjartað er á réttum stað þegar neyðin birtist frá fjarlægum löndum. Við þurfum að taka höndum saman við þjóðina og leiða fram raunhæfar, skynsamlegar lausnir í því máli og á öðrum sviðum alþjóðamála þar sem Ísland getur látið til sín taka og notað tækifærið vegna þeirrar sterku stöðu sem við erum nú komin í til þess að láta gott af sér leiða á alþjóðavettvangi.

Almennt hlýtur að vera markmið okkar að ná meiri árangri, að gera betur í þingstörfunum í vetur og á næstu árum, gera Alþingi að enn árangursríkari stofnun í þágu þjóðarinnar.