145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Kæru landsmenn. Framleiðni í íslensku atvinnulífi er almennt mun lakari en hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er mjög mikilvægt að allir geri sér grein fyrir samhengi hlutanna, þ.e. framleiðni og kjörum almennings. Á milli þessara þátta er órofið samband. 20% minni framlegð en í nálægum löndum er ávísun á lakari kjör launafólks hér á landi.

Með þrautseigju að vopni hefur þjóðinni tekist að byggja upp samfélag í fremstu röð. Nýting náttúruauðlinda gegnir þar lykilhlutverki. Þótt þær séu vissulega takmarkaðar hér á landi höfum við með skynsömum hætti nýtt þær sem við höfum.

Þær atvinnugreinar sem skara fram úr á Íslandi þegar kemur að framleiðni eru sjávarútvegur og orkufrekur iðnaður. Svo undarlega sem það kann að hljóma eru þetta þær atvinnugreinar sem harðast er tekist á um. Við verðum að leggja mikið á okkur til að ná fram skynsamlegri stefnu í því hvernig við fóðrum okkar bestu mjólkurkýr um leið og við horfum til þess hvernig við getum aukið framleiðni og fjölbreytni í atvinnulífi okkar.

Í svokallaðri McKinsey-skýrslu er mikið fjallað um stöðu okkar að þessu leyti. Þar er að finna margar góðar tillögur og varnaðarorð. Þar segir meðal annars að ein mesta hætta okkar sé fólgin í því að aftur stefni í viðvarandi viðskiptahalla samfara aukinni neyslu á meðan fjárfesting í atvinnulífi standi í stað. Þar er einnig lögð áhersla á ábyrgð allra aðila um að koma sér saman um trúverðuga áætlun um hagvöxt sem byggir á grunnstyrkleikum hagkerfisins, auknu virði takmarkaðra auðlinda, úrbótum í menntakerfi og eflingu alþjóðlegrar atvinnustarfsemi.

Á sama tíma og þær staðreyndir blasa við okkur tökumst við á um það hver stefnan eigi að vera í mikilvægustu atvinnugreinum okkar. Það er á ábyrgð okkar alþingismanna að komast að skynsamlegri niðurstöðu í þeim efnum og ég vona að okkur þingmönnum takist að komast upp úr þeim skotgröfum sem flestir hafa fengið nóg af og að við reynum að ná utan um verkefnin með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ríkisstjórnin er að stíga mikilvæg skref í að auka samkeppnishæfi íslensks samfélags. Í raun er að nást ótrúlegur árangur á skömmum tíma. Afnám gjaldeyrishafta ber þar auðvitað hæst, hallalaus rekstur ríkisins, afnám vörugjalda síðastliðin áramót, afnám tolla um þau næstu og þarnæstu áramót. Ísland er á góðri leið með að verða tollfrjálst land. Það mun styrkja verslun og þjónustu mikið en þar er framleiðni, m.a. vegna þessara hafta, mjög lág.

Aukin menntun er mikilvæg og okkur er nauðsynlegt að efla framleiðni í menntakerfinu. Það er lykillinn að því að geta greitt betri laun í þeim greinum og skilað börnum okkar betur undirbúnum út í lífið. Í mörg ár hefur verið reynt að ná fram breytingum í menntakerfi okkar og gera það skilvirkara. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur náð að stíga risaskref í þá átt á þeim tveimur árum sem hann hefur verið í ráðuneytinu. Stytting framhaldsskóla, þar sem fjárhagslegur ávinningur fór til að hækka laun kennara, mun skila sér í milljarða ávinningi fyrir nemendur og þjóðarbúið þegar fram í sækir. Það skiptir okkur miklu í samanburði við framleiðni í öðrum löndum að ungt fólk hér á landi komi inn á vinnumarkaði á sama aldri og ungmenni í nágrannalöndum okkar.

Hið opinbera getur tekið mikið til sín í þessum ranni. Það á ekki síst við í heilbrigðiskerfinu þar sem framleiðnin er á engan hátt ásættanleg. Aukinn sjálfstæður rekstur og bygging nýs landspítala eru lykilatriði í þeim málaflokki að mínu mati.

Í dag boðar ríkisstjórnin 1.200 millj. kr. framlag til að vinna bug á biðlistum í heilbrigðiskerfi okkar. Það bíða um 3.500 manns eftir augasteinaaðgerðum, um 1.150 manns eftir liðskiptaaðgerðum og mörg fleiri dæmi má nefna. Kostnaður samfélagsins af veikindum þessa fólks er gríðarlegur, að ekki sé talað um þjáningar einstaklinganna sem í hlut eiga. Aukin fjölbreytni í sjálfstæðum rekstri í heilbrigðiskerfinu á að eiga stóran þátt í því að fljótt og vel takist til við að eyða þessum biðlistum.

Sem dæmi um reynslu okkar af þessu má nefna það þegar Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi heilbrigðisráðherra, lækkaði með samningi við sjálfstæða læknastofu kostnað við augasteinaaðgerðir á árunum 2007/2008. Kostnaðurinn fór úr 240 þús. kr. í 105 þús. kr. Samningurinn varð til þess að biðlistar drógust verulega saman á örskömmum tíma. Þá sömu leið eigum við að fara í dag þar sem tækifæri er til og við eigum að skapa farveg fyrir slík tækifæri.

Einnig er nauðsynlegt að nefna hér flókið og þunglamalegt regluverk og eftirlitskerfi í kringum atvinnulíf okkar. Það er mikilvægt að ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins taki höndum saman um að einfalda þetta kerfi og að dregið verði úr starfsemi ríkisins og verkefni færð til hins frjálsa markaðar eftir því sem tök eru á. Nærtækast er í því efni að rifja upp þann tíma þegar bifreiðaskoðun var á könnu hins opinbera, en í dag er víðtækari og betri þjónusta veitt á almennum samkeppnismarkaði.

Það er eflaust margt sem veldur slakri stöðu okkar og hér bera allir einhverja ábyrgð, það á við um hið opinbera sem og aðila vinnumarkaðarins. Það verður alltaf hlutfallslega dýrt að vera fámenn þjóð í stóru og nokkuð strjálbýlu landi. Skipulag okkar verður að taka mið af þeim aðstæðum þannig að við getum eflt byggð og atvinnulíf um land allt. Þróun í sjávarútvegi var fyrirsjáanleg með þeim hagræðingarhvötum sem eru byggðir inn í fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Viðbrögð við því eiga að vera aukin fjölbreytni við verðmætasköpun um allt land. Ónýttar orkuauðlindir okkar munu gegna lykilhlutverki í þeirri uppbyggingu. — Góðar stundir.