145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það er mér heiður að standa hér fyrir framan þingheim og fá að taka þátt í því lýðræði sem ríkir á Íslandi, ekki síst á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Nú í dag sitjum við á þingi þar sem hlutfall kvenna er 44,4%, það hæsta sem verið hefur í sögu Alþingis.

Við í þingflokki pírata munum að vanda starfa samkvæmt grunnstefnu okkar sem byggist á grunnhugmyndum um borgaraleg réttindi, lýðræði og gegnsæi. Við hefjum þennan þingvetur á að leggja fram þrjú forgangsmál sem öll eiga það sameiginlegt að stuðla að meira gagnsæi, valdajafnvægi og verja mannréttindi, auk þess sem við munum halda áfram að tala fyrir lýðræðisumbótum innan veggja Alþingis og utan.

Í fyrsta lagi leggjum við fram þingsályktunartillögu um fullgildingu viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum. Þessi viðbótarsamningur kveður á um eftirlit sjálfstæðra aðila með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga. Þessum eftirlitsaðilum er til að mynda falið að heimsækja reglulega fangelsi landsins til að ganga úr skugga um að allir innan þeirra veggja njóti mannúðlegrar meðferðar og að enginn þurfi að þola pyndingar. Píratar hafa beitt sér fyrir bættum aðbúnaði fanga og skýrari áherslum á betrun í fangelsum landsins. Það er okkur því mikið gleðiefni hve vel aðrir þingflokkar hafa tekið undir þessi mál sem varða viðkvæman minnihlutahóp. Við erum sannfærð um að Alþingi muni samþykkja að fullgilda þennan samning svo hið nauðsynlega eftirlit geti hafist sem fyrst.

Virðulegi forseti. Við píratar leggjum mikla áherslu á eflingu eftirlitshlutverks Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Tvö síðari forgangsmál okkar varða þetta hlutverk þingsins sérstaklega. Í tillögu til þingsályktunar um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu leggjum við til að Alþingi hafi yfirumsjón með eftirliti með lögreglu í stað ráðherra sem jafnframt er æðsti yfirmaður lögreglu í landinu. Í opnu lýðræðisþjóðfélagi er nauðsynlegt að verja gagnkvæmt traust milli lögreglu og borgara. Eftirlit með lögreglu hefur borið töluvert á góma í samfélaginu, m.a. vegna ýmissa mála sem komið hafa upp á undanförnum missirum og árum. Má til dæmis nefna harðræði við handtökur, meint brot á reglum um uppflettingar í gagnagrunni lögreglu, framkvæmd hlerana og líkamsleitar, viðbúnað lögreglu á samkomum og svo mætti lengi telja.

Segja má að töluverð vakning hafi orðið um eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Sú viðhorfsbreyting kemur meðal annars fram í skýrslum sem unnar hafa verið á undanförnum árum, ekki síst skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir og aðdraganda bankahrunsins sem og skýrslum sem unnar hafa verið um nauðsynleg viðbrögð Alþingis við henni.

Það þriðja sem við munum setja í forgang í vetur er frumvarp um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra og er það þingmál sem ég mun mæla fyrir. Markmið þessa frumvarps okkar pírata er að festa upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi betur í sessi, bæði í þingsköpum og í lögum um ráðherraábyrgð. Frumvarp um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra er ekki til komið að tilefnislausu en þar að auki er þetta hluti af langþráðu uppgjöri við það hrun sem hér varð árið 2008. Sannleiksskylda ráðherra snýst um að jafna vald þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Réttur þingsins til þess að fá réttar og sannar upplýsingar frá ráðherra er nauðsynlegur og þarf að vera tryggður með lögum.

Að setja sig upp á móti sannleikanum er tapað stríð. Sannleikurinn er ekki eingöngu sagna bestur, hann er grundvöllur réttlætis og þess samfélags sem við viljum búa í. Ég veit til dæmis ekki betur en að lengsta samfellda hagvaxtarskeiðið hafi hafist árið 1995 og ekki lokið fyrr en 2007. Samkvæmt þjóðhagsáætlun sem lögð var fram 2003 var hagvöxtur á tímabilinu 1995–2001 4% að meðaltali. Eftir 2001 hélt hagvöxtur áfram og hefur gert fram til 2007. Því set ég spurningarmerki, ef mér leyfist, virðulegi forseti, við sannleiksskyldu söguskoðunar ríkisstjórnarinnar, að hún hafi leitt lengsta hagvaxtarskeið sem á sér stað nú á þessari öld, hvað þá í Íslandssögunni. Núverandi hagvaxtarskeið hefur varað í um þrjú ár. Hæstv. ríkisstjórn hefur setið í tvö.

Draumurinn um betra Ísland er mörgum hugleikinn. Sumir hverjir halda að hér drjúpi smjör af hverju strái og að Ísland hafi risið eins og fuglinn Fönix úr öskunni eftir hrunið árið 2008. En við erum ekki risin enn og það er mikilvægt að við rísum í rétta átt, lærum af mistökum fortíðar. Draumurinn um betra Ísland er mér hugleikinn. Ég er hingað komin til þess að taka þátt í að byggja betra land.

Uppgjör eftir bankahrunið hefur ekki orðið að veruleika. Þær breytingar sem stuðla áttu að raunverulegu lýðræði, gegnsæi, ábyrgð, réttlæti og opnu samfélagi hafa verið settar á ís. Þá er nærtækast að nefna nýju stjórnarskrána okkar Íslendinga sem liggur í dvala.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis greindi hvað leiddi til bankahrunsins og það er ábyrgð okkar sem sitjum á þingi að taka þeim ábendingum sem lagðar eru fram þar. Það voru ekki bara bankarnir sem hrundu, heldur samfélagsgerðin sjálf. Rétt eftir hrun varð mönnum tíðrætt um að enginn hefði getað séð þetta fyrir. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið sýndi fram á hið gagnstæða. Öndvert við fjölmargar ábendingar um raunverulega stöðu íslensku bankanna var glansmyndinni haldið uppi eins og í meðvirku hjónabandi áfengissjúklings. Þjóðarskútunni var beinlínis stýrt í kaf vegna draums hóps manna er trúðu því að þeir gætu gert Ísland að bankaparadís á fimm árum.

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið, svo ég vitni nú í Stein Steinar, með leyfi forseta. En fallið var ekki hulið þeim sem á það bentu, það var falið af þeim sem betur vissu. Draumurinn um betra Ísland þarf ekki að breytast aftur í martröð. Við erum með allt sem þarf til að setja betri leikreglur á vettvangi stjórnmála, fjölmiðla og fjármála og byggja þannig betri framtíð, lífvænlega framtíð fyrir komandi kynslóðir. Ég er tilbúin til að vera barnið sem bendir á að keisarinn er ekki í neinum fötum því að sannleikurinn er sagna bestur og það er svo margt sem við eigum enn eftir að læra. Ég er ekki tilbúin að gefast upp á draumnum. Ég er ekki tilbúin að gefast upp á þér, elsku Ísland.