145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að það eru mjög jákvæð teikn á lofti í efnahagslífinu. Það hefur orðið viðsnúningur. Það er uppgangur. En ég ætla líka að segja það, vegna þess að mér finnst bara ósanngjarnt að gera það ekki, að ég verð að þakka ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hafa tekið ótrúlega erfiðar ákvarðanir í mjög erfiðum kringumstæðum á árunum eftir hrun. Við erum að uppskera núna út af því. Það þurfti að ná niður 200 milljarða kr. halla á ríkissjóði eftir hrun og það tókst. Þannig að núna er ríkissjóður hallalaus. Fjárlög eru hallalaus. Teknar voru veigamiklar ákvarðanir sem hafa núna lykilþýðingu í því að gera upp gömlu búin og losa höftin. Sama hvað má segja um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að öðru leyti verður að hrósa henni fyrir þetta, vegna þess að við erum hér í kvöld að horfa á afraksturinn, uppskeruna. Og við erum á miklum tímamótum. Viðsnúningurinn er hafinn. Það eru blómlegri tímar. Það liggja í þessu mjög mikil tækifæri, myljandi tækifæri.

Ég held að það sé tvennt sem við verðum að hafa að leiðarljósi til að spila vel út úr þeim möguleikum sem við stöndum núna frammi fyrir. Það er langtímahugsun. Við Íslendingar verðum núna einu sinni að reyna að höndla góðæri og ekki steypa okkur einhvern veginn í kollsteypur. Við verðum að hugsa til langs tíma fyrir börnin okkar, fyrir komandi kynslóðir. Og við þurfum almennilegt samtal í þjóðfélaginu, almennilega samræðu.

Við stöndum á tímamótum. Við getum virkilega búið til samfélag jafnra tækifæra. Við getum bætt lífskjörin. Við getum bætt umgjörð kjarasamninga með virku samtali. Við getum farið í að endurreisa velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, heilsugæsluna, bætt lýðheilsu og aðbúnað aldraðra, fæðingarorlofskerfið. Við getum gert plan um þetta allt saman, við getum stefnt að þessu. Núna getum við virkilega farið í lýðræðisumbætur með breytingum á stjórnarskránni. Það er virkilega tækifæri til þess núna. Við getum útkljáð erfið deilumál, er það ekki? með góðu samtali um það hvernig við ætlum að skipta arðinum af orkuauðlindum og sjávarauðlindum þjóðarinnar. Við getum fundið þennan samhljóm.

Við getum virkilega endurhannað íslenskt atvinnulíf, komið því út úr þessu ríkisstyrkta umhverfi í landbúnaði og stóriðju. Stóriðjustefnan, þessi ríkisstyrkta, hún er dáin. Hún er búin. Við getum byggt upp fjölbreytt atvinnulíf nýsköpunar og skapandi greina. Yrkja en ekki virkja. Það getum við gert.

Við getum virkilega fundið okkur stað í samfélagi þjóðanna. Við getum verið fyrirmynd í umhverfismálum. Við getum það ef við viljum. Við getum verið eina samfélagið sem notar alls ekki jarðefnaeldsneyti. Við getum sýnt öðrum þjóðum að það er hægt. Þetta getur Ísland. Setjum okkur þetta markmið.

Núna er komið að því að það þarf að ákveða að vera almennileg þjóð á meðal þjóða þegar kemur að mannúðarmálum, þegar kemur að því að aðstoða fólk á stríðshrjáðum svæðum, þegar kemur að því að taka á móti flóttafólki. Við getum þetta auðvitað. Og við eigum að setja okkur þessi markmið. Núna eru tímamótin. Núna eru möguleikarnir.

Það eru líka hindranir. Ég ætla að nefna fjórar hindranir. Fyrsta er þessi: Íslendingar hafa afleita sögu í að höndla góðæri. Það er erfiðara að stjórna í góðæri á Íslandi en í kreppu, held ég. Ég bíð eftir fréttinni um að einhvers staðar sé einhver í einhverju partíi á Íslandi að borða gullspaghettí og við munum sjá aftur það gríðarlega hömluleysi sem hefur oft einkennt íslenskt efnahagslíf og íslenskt samfélag í uppgangi. Það þarf að stjórna væntingum. Við þurfum öll að leggjast á eitt með það.

Númer tvö. Umræðan. Hún er ekki í jafnvægi á Íslandi. Það er einhvern veginn erfitt að tala, erfitt að segja skoðanir sínar. Það er mikið öskrað og æpt. Við þurfum meiri heimspeki. Við þurfum meiri íhugun og fólk þarf að geta sagt skoðanir sínar án þess að eiga það á hættu að fá yfir sig aurskriðu leiðinda. Því þarf að breyta.

Númer þrjú. Gömul valdapólitík. Það eimir eftir af mjög gamalli valdapólitík í störfum og starfsháttum ríkisstjórnarflokkanna, enda eru þetta gamlir flokkar. Við sjáum pólitískar ráðningar í stjórnir og stöður. Það er afturhvarf.

Mér finnst stundum, miðað við hvernig þingið hefur verið þessi tvö ár af kjörtímabilinu eins og menn vilji ekki sáttina. Menn henda hérna inn málum sem setja allt í háaloft. Við verðum að hætta þessu. Það er stundum eins og gamla valdapólitíkin, meirihlutaræðið, líti á sáttina sem einhvers konar veikleikamerki.

Í fjórða lagi. Sérhagsmunir. Þeir verða alltaf til, en það eru almannahagsmunir sem eiga að ráða för í allri ákvarðanatöku. Þetta verða stjórnarflokkarnir, rótgrónir sem þeir eru, að taka til sín. Það eru alls konar týpur í íslensku samfélagi sem hafa allt of mikil áhrif. Eitt dæmi: Það er verið að afnema tolla á öllu nema mat. Nema mat. Kristaltært dæmi um áhrif sérhagsmuna, allt of mikil áhrif. Sérhagsmunir vilja auðvitað alltaf almannahag, en þeir vilja sinn hag fyrst. Þeir vilja fyrst græða, svo almenningur. Það, kæru landsmenn, er saga Íslands. Því þarf að breyta. Þannig að er ég bjartsýnn? Svona temmilega.