145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 sem er 1. mál þessa 145. þings. Þriðja árið í röð er fjárlagafrumvarpið lagt fram með afgangi. Frumvarpið gerir að þessu sinni ráð fyrir 15,3 milljarða afgangi, þ.e. afgangi á heildarjöfnuði, fyrir árið 2016. Það jafngildir 0,7% af vergri landsframleiðslu. Við gerum ráð fyrir 73 milljarða afgangi af frumjöfnuði á árinu sem jafngildir 3,1% af landsframleiðslu, en það er meira en í flestum nágrannalöndum um þessar mundir.

Áfram er byggt á þeim góða grunni sem lagður hefur verið með hallalausum ríkisrekstri í tvö ár og útlit er fyrir stöðugan bata í afkomu ríkissjóðs á komandi árum. Í því sambandi er rétt að taka fram að horfur eru á betri útkomu á þessu fjárlagaári en stefnt var að með setningu fjárlaga 2015 þar sem nú er gert ráð fyrir að afgangurinn verði rúmur 21 milljarður í stað 3,5 milljarða á fjárlögum. Munar þar mest um hagfelldar einskiptistekjufærslur á yfirstandandi ári, einkum arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum, en einnig stefnir í minni halla á vaxtajöfnuði.

Meginatriði fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2016 eru, samfara batnandi afkomu, að skuldahlutföll ríkissjóðs lækka, tekjuskattur einstaklinga lækkar og tollar verða afnumdir í áföngum, framlög til húsnæðismála verða aukin, elli- og örorkulífeyrir hækkar verulega, velferðarkerfið er styrkt frekar og framlög til nýsköpunar og þróunar eru aukin svo um munar.

En ef það er eitthvað eitt umfram annað sem fjárlagafrumvarp ársins 2016 gefur fyrirheit um og vert er að gefa sérstakan gaum er það sú staðreynd að við stöndum á vatnaskilum í stöðu ríkisfjármálanna og nú er gott færi til að umbylta skuldastöðu ríkissjóðs og færa hana til betri vegar. Takist vel til með framkvæmd áætlunar um afnám fjármagnshafta samfara batnandi afkomu ríkissjóðs og lækkandi vaxtabyrði eru framtíðarhorfur íslenskra efnahagsmála verulega jákvæðar og leiðin til aukinnar velsældar þjóðarinnar tryggilega vörðuð.

6% kaupmáttaraukning frá júlí 2014 til júlí 2015, samfara lágri verðbólgu, lækkandi skuldastöðu heimila, minnkandi atvinnuleysi og myndarlegum hagvexti, sýnir svo ekki verður um villst að verulegur lífskjarabati hefur náðst að undanförnu með stöðugleika í efnahagsmálum. En það eru vissar blikur á lofti þar sem verðbólguvæntingar hafa aukist, ekki síst vegna mikilla launahækkana í þeim kjarasamningum sem þegar hafa verið gerðir, og enn ríkir nokkur óvissa um hve mikil áhrif þeir samningar munu hafa á eftirspurn og þenslu. Þar spilar líka inn í að töluverður órói hefur verið á heimsmörkuðum nú síðustu vikur og ekki ljóst á þessari stundi hver framvinda efnahagsmála verður hjá helstu viðskiptalöndum. Inn í þá stóru mynd og þróun undanfarinna missira spilar að viðskiptakjör Íslands hafa batnað með lækkandi olíuverði. Við vitum ekki hversu lengi sú staða mun þróast með jákvæðum hætti fyrir okkur Íslendinga.

Það er gott að hafa í huga, herra forseti, að við fáum ábendingar reglulega frá þeim sem fylgjast með þróun mála á Íslandi, nú síðast frá framkvæmdastjóra OECD, Angel Gurría, en hann hafði það að segja um stöðu Íslands um þessar mundir að við Íslendingar ættum ekki að vera of uppteknir af þróun og framvindu efnahagsmála í hinum stóra heimi, hvorki í Bandaríkjunum né Kína, við gætum lítil áhrif haft hvað sem umræðan yrði djúp um þau mál á þróun verðmyndunar á heimsmarkaði með olíu, svo dæmi sé tekið. En þeim mun meiri athygli og kröftum ættum við að beina að því sem við getum raunverulega haft áhrif á. Það er auðvitað víða, þó að málin séu að snúast með okkur um þessar mundir, sem við getum gert töluvert betur á næstu árum.

Það er mikilvægt að við berum gæfu til að sýna ábyrgð og stillingu á viðkvæmu uppvaxtar- og hagvaxtarskeiði. Við þurfum að taka höndum saman og tryggja eins vel og við getum að við höldum þeim ávinningi sem þegar hefur náðst á grundvelli stöðugleikans að undanförnu, að við glutrum honum ekki aftur niður. Við skulum ávallt hafa það hugfast að því verkefni að tryggja sjálfbæran hagvöxt, efla framleiðnivöxt og festa betur árangur í sessi í ríkisfjármálum verður aldrei lokið í eitt skipti fyrir öll. Það er viðvarandi verkefni.

Vaxtagjöld sem ríkið greiðir vegna gríðarlega mikilla skulda eru þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs um þessar mundir. Að óbreyttri skuldastöðu, en heildarskuldir ríkissjóðs námu nærri 1.500 milljörðum kr. í árslok 2014, þarf að greiða um 70 milljarða árlega í vexti. Þeim peningum er svo sannarlega betur varið í uppbyggingu velferðarþjónustunnar, styrkingu innviða samfélagsins og til að draga úr sköttum og öðrum álögum á einstaklinga og fyrirtæki í landinu.

Til viðbótar við allt of háa skuldastöðu ríkisins höfum við ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs. Þær standa í um 435 milljörðum kr. um síðustu áramót mælt. Fyrirséð er að allir fjármunir B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga verði uppurnir að óbreyttu eftir 15 ár og falla þá greiðslur til sjóðfélaga að fjárhæð 28 milljarða á ári beint á ríkissjóð. Það eru 28 milljarðar á ári verði ekkert að gert. Þetta er ekki svo langt inni í framtíðinni.

Vandinn sem við blasir í þeim efnum er því umtalsverður. Sem betur fer gefa jákvæðar horfur í ríkisfjármálum fyrirheit um að hægt verði að taka á vandamálinu og leysa það að stórum hluta, fresta því inn í lengri framtíð að þessar skuldbindingar lendi á ríkissjóði eða koma í veg fyrir það með öllu. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er stigið skref í þá átt. Skuldabréf, að fjárhæð 145 milljarðar, sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar á Seðlabanka Íslands verður greitt upp að fullu næsta vor. Við munum lækka stöðu þessa bréfs á síðari hluta þessa árs fram til áramóta en í síðasta lagi um mitt næsta ár ætlum við að hafa gert það upp að fullu. Að öðru leyti er erfitt á þessari stundu að segja til um það með nokkurri nákvæmni hvaða áhrif afnám fjármagnshaftanna mun hafa á stöðu ríkissjóðs og skuldastöðu hans. Það er ljóst af þeim fjárhæðum sem fram hafa komið í umræðu um haftaafnámsáætlunina, um lögin um stöðugleikaskattinn, að það geta opnast möguleikar á að ganga talsvert lengra í því að lækka skuldir eða greiða inn á þegar útgefnar skuldbindingar ríkissjóðs, nokkuð umfram það sem gert er ráð fyrir í þessu fjárlagafrumvarpi.

Við skulum ekki gera ráð fyrir því þannig að það gerist allt í einu vetfangi, að það komi allt til framkvæmda og okkur til góða strax á næsta ári eða gera ráð fyrir því að það verði langt umfram það sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Ég tel að við eigum að stíga varlega til jarðar í því að gefa okkur eitthvað um það, jafnvel þótt við séum að ræða hluti sem eiga að skýrast á næsta hálfa árinu eða svo.

Ég hef nefnt skuldabréfið sem gefið var út til endurfjármögnunar á efnahag Seðlabankans og hvernig við ætlum að losna við það, en það er fleira sem við leggjum til hér. Betri afkoma, sala á ríkiseignum sem féllu í fang ríkisins við fall fjármálakerfisins haustið 2008, þetta skiptir máli til að greiða upp skuldir. Í því sambandi skulum við hafa það hugfast, vegna þess að gjarnan er umræðan um fjárlagafrumvarpið ekki hvað síst um velferðarmálin og getu okkar til að gera betur á því sviði, að árangur í þessum málum er forsenda þess að við náum alvöruviðspyrnu til að mæta betur væntingum landsmanna í velferðarmálum, að ná að stefna að vaxtajöfnuði í ríkisfjármálum sem allra fyrst og stefna að því að vera laus undan skuldafjallinu, helst þannig að við höfum í raun og veru engar hreinar skuldir.

Við segjum í þessu fjárlagafrumvarpi, horft langt fram í tímann, að það gæti verið raunhæft markmið í síðasta lagi 2025. Kannski getum við gert betur, það verður tíminn að leiða í ljós. Það er að minnsta kosti ljóst að með markvissum ráðstöfunum á efnahagsreikningi ríkissjóðs og áframhaldandi ábyrgð í ríkisfjármálum er alls ekki of metnaðarfullt markmið að ná því á næstu tíu árum.

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin lagði í fyrsta sinn fyrir Alþingi þann 1. apríl sl. þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára og var hún síðar samþykkt á því þingi. Með þessari voráætlun voru sett fram meginmarkmið ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, helstu forsendur og stefnumið fyrir þróun afkomu, tekna, útgjalda og skulda. Við settum fram ramma um heildarútgjöld ríkissjóðs með hagrænni skiptingu í rekstur, fjármagnskostnað, tilfærslur, viðhald og stofnkostnað og var það allt lagt til grundvallar í fjárlagagerðinni sem þá var nokkuð á veg komin en kláraðist á mánuðum þar á eftir.

Áætlunin fól í sér stefnumörkun um hægfara en stöðugan bata í afkomu ríkissjóðs þannig að rekstrarafgangur verði kominn í að minnsta kosti 1% af vergri landsframleiðslu árið 2018. Stefnumið og markmið áætlunarinnar eru í öllum aðalatriðum óbreytt frá voráætluninni í endurmetinni ríkisfjármálaáætlun sem fylgir fjárlagafrumvarpinu. Þetta gildir þótt efnahagsforsendur hafi þróast nokkuð á annan veg en þá var gert ráð fyrir og þannig hefur það leitt til veltubreytinga í nokkrum þáttum áætlunarinnar. Þetta breytir ekki hinu, að þessi stefnumið standa og við fylgjum sömu markmiðum og við kynntum í voráætluninni sem var síðan samþykkt hér.

Það er útlit fyrir stöðugan bata í afkomu ríkissjóðs á komandi árum, eins og ég nefndi í upphafi, samhliða því að bæði frumtekjur og frumgjöld fara nokkuð lækkandi í hlutfalli við verga landsframleiðslu. Gert er ráð fyrir allnokkrum raunvexti á bæði tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs fram til ársins 2019, þótt hann verði heldur hægari en spár um hagvöxt á tímabilinu. Þetta dregur fram hversu mikið við eigum undir því að hagvöxturinn haldi áfram. Það skiptir máli fyrir skuldaþróunina, það skiptir miklu máli fyrir afkomuna og það skiptir miklu máli fyrir árangur í þeim málum sem ég hef verið að fara yfir, getu okkar til að létta af okkur vaxtabyrðinni.

Ég vek athygli á því að í ríkisfjármálaáætluninni myndast um 20 milljarða sérstakur afgangur af afkomunni á árinu 2017 vegna flýtingar á útgjöldum við niðurfærslu á húsnæðisskuldum fram til ársins 2014, þ.e. við gerðum áður ráð fyrir því að á árinu 2017 kæmi síðasti hluti skuldaleiðréttingarinnar til framkvæmda. Við færðum þann hluta til ársins 2014 með sérstakri ákvörðun á síðasta ári og við það batna horfur á árinu 2017 nokkuð í langtímaáætlunum okkar.

Á sama tíma höfðum við í áætlunum okkar gert ráð fyrir því að sú sérstaka hækkun sem gerð var á bankaskattinum mundi halda áfram og það myndar viðbótarafgang á árinu 2017. Við höldum því til haga í umfjöllun um áætlunina þannig að menn geti gert sér grein fyrir því hvernig þessi flýting hefur áhrif að þessu leytinu til. Það er alveg sjálfsagt og eðlilegt að halda því til haga þegar horft er fram í tímann.

Heildartekjur ríkissjóðs á árinu 2016 eru áætlaðar 696,3 milljarðar og aukast um 16,2 milljarða frá áætlaðri útkomu þessa árs en sem hlutfall af landsframleiðslu dragast tekjurnar lítillega saman, þ.e. úr 31,4% í 29,9%.

Heildargjöld eru áætluð 681 milljarður og hækka um 22 milljarða frá áætlaðri útkomu þessa árs en sé miðað við upphaflega áætlun fjárlaga fyrir árið 2015 eru hækkanir á heildarútgjöldum nokkuð meiri eða 30,9 milljarðar.

Meðal nýrra framlaga í frumvarpinu eru framlög til húsnæðismála sem nema samtals 2,6 milljörðum kr. til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál í maí sl., sem var hluti af aðgerðum til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og að sjálfsögðu til að fylgja eftir þeirri stefnu sem boðuð hefur verið í húsnæðismálum af ríkisstjórninni. Hér ber að hafa í huga að miklu máli skiptir að heildaraðgerðir hins opinbera stuðli fyrst og fremst að auknu framboði húsnæðis og lækkun á byggingarkostnaði við þær aðstæður sem nú eru uppi þannig að stöðugleiki og eðlilegt jafnvægi náist að nýju á fasteignamarkaði. Einnig ber þar að líta til þess að koma þarf á sjálfbæru fjármögnunarumhverfi á húsnæðismarkaði sem auðveldar ungu fólki kaup á fyrstu eign og við þurfum að hverfa frá stuðningi sem leiðir til ósjálfbærrar skuldasöfnunar heimilanna.

Ég tel að við höfum dæmi um það í fortíðinni, að við höfum haft eftir atvikum of ríka hvata. Ég er ekki síst að vísa til vaxtabótakerfisins sem getur haft þá eiginleika, sérstaklega samfara því að opnað er fyrir mjög háa skuldsetningu í hlutfalli við virði eigna. Ég horfi til þess sérstaklega að við ræðum það að festa varanlega í sessi séreignarsparnaðarleiðina, sem svo hefur verið nefnd. Nú eru um 35 þús. einstaklingar, frá júní á þessu ári að telja, að nýta sér þá leið til að lækka greiðslubyrði sína. Þessi fjárhæð hefur gengið beint inn á húsnæðisskuldir, enda skilyrt. Vilji menn nýta þann sparnað sem þar hefur safnast fyrir og taka hann út með skattfrjálsum hætti ber mönnum að ráðstafa honum inn á húsnæðisskuldir. Fjárhæðin sem búið er að ráðstafa af séreignarsparnaði til greiðslu lána og útgreiðslna vegna kaupa er um 11 milljarðar í dag. Að gefnum ákveðnum forsendum er hið opinbera með þessari aðgerð að veita hátt í 0,5 milljarða á mánuði í skattfrádrátt til að auðvelda einstaklingum að lækka greiðslubyrði lána sinna og með hvata til sparnaðar til húsnæðiskaupa. Þá er ótalið það sem enn á eftir að koma í ljós, hvað tekið verður út af þeim sparnaði sem þegar er að safnast upp og hefur safnast upp á meðan þessar aðgerðir hafa verið í gildi en getur gengið til kaupa á nýju húsnæði á næstu árum. Þetta tel ég að hafi verulega þýðingu og verði að taka með í umræðu um aðgerðir sem ríkisstjórnin stendur fyrir til að bæta stöðu fólks á húsnæðismarkaði. Við veitum í hverjum mánuði um 0,5 milljarða í skattfrádrátt í því skyni.

Virðulegur forseti. Til samræmis við aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2014–2016 og til samræmis við áður gefin fyrirheit í þeim efnum eru framlög til vísinda og rannsókna aukin um 2 milljarða fyrir árið 2016 til viðbótar við þær 800 millj. kr. sem komu fram í fjárlögum yfirstandandi árs. Þau framlög dreifast að mestu til Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs en 100 milljónir af þeirri fjárhæð renna til Innviðasjóðs.

Ég tel að þetta sé mikið framfaraskref. Ákvörðun um að styrkja þessa sjóði um 2,8 milljarða á ári til viðbótar við það sem áður var er mjög stórt skref í að efla vísindi, tækniþróun, nýsköpun á Íslandi.

Við veitum 1,6 milljarða til heilbrigðismála sérstaklega umfram það sem áður hefur verið gert. Þar fara samtals um 0,5 milljarðar til styrkingar á rekstri Landspítalans. Það rennur einnig til Sjúkrahússins á Akureyri og annarra heilbrigðisstofnana. 0,5 milljarðar renna til styrkingar á rekstri heilsugæslunnar. Við höfum lengi rætt það á Alþingi að styrkja þurfi heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og hér eru stigin markviss skref í því efni. Um 300 milljónir fara til framkvæmdaáætlunar um byggingu nýrra hjúkrunarheimila. Það er viðbót og er í framhaldi af því sem þegar hefur verið gert í því efni.

Í heilbrigðismálunum eru líka stigin skref í þessu fjárlagafrumvarpi til að efla heimahjúkrun en því til viðbótar sem ég hef rakið vil ég minnast á það að í frumvarpinu eru veitt aukin framlög vegna fullnaðarhönnunar á meðferðarkjarna á lóð Landspítalans við Hringbraut og til byggingar á sjúkrahóteli á næsta ári. Þá eru framlög til fræðslumála aukin um 0,5 milljarða en þar af fer ríflega þriðjungur til verkefnis um eflingu læsis. Einnig er gert ráð fyrir 500 milljóna framlagi til stofnunar á nýju embætti héraðssaksóknara.

Virðulegur forseti. Ég vek athygli á því að áætlaðar launa- og verðlagshækkanir fjárlagafrumvarpsins eru hærri að nafnvirði en nokkru sinni áður, um 29 milljarðar kr. Þar af eru um 8,6 milljarða kr. áhrif á ársgrundvelli af kjarasamningunum sem gerðir voru 2014 og í byrjun sumars 2015 ásamt spá um hækkanir þeirra sem enn þá er ósamið við.

Því til viðbótar eru launa- og verðlagshækkanir á næsta ári áætlaðar um 20 milljarðar. Þar af nemur hækkun atvinnuleysisbóta og bóta almannatrygginga um 9,4%. Samtals verða það 9,8 milljarðar. Áætlað er að útgjöld til almannatrygginga verði í heild 99 milljarðar á árinu 2016. Verði það niðurstaðan hafa þau aukist um 22,5 milljarða frá árinu 2013 eða sem svarar til 29% að nafnvirði. Útgjaldaaukningin frá 2013–2016 er að raunvirði hins vegar 15,7 milljarðar ef horft er til vísitölu neysluverðs, sem svarar til 19% aukningar. Þannig er ljóst að kaupmáttur bótanna hefur aukist og tryggt er með þessu frumvarpi, ekki síst þegar horft er til spár um verðlagsþróun, að kaupmáttur bóta mun halda áfram að þróast á jákvæðan hátt á næsta ári.

Herra forseti. Margvíslegar skattbreytingar setja svip sinn á áætlanir um skatttekjur næsta árs, m.a. í þá átt að einfalda skattkerfið, gera það skilvirkara og draga úr skattbyrði. Í tengslum við gerð kjarasamninga á vormánuðum ákvað ríkisstjórnin að beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga sem mundi leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega en þó sérstaklega millitekjuhópanna. Það kom í framhaldi af því að á vinnumarkaði var samið sérstaklega um hækkun á lægri launastiganum. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 eru þessar breytingar á tekjuskatti einstaklinga kynntar og þær fela í sér lækkun á skattprósentu 1. og 2. þreps og fækkun skattþrepa úr þremur í tvö í tveimur áföngum til ársins 2017 ásamt breytingum á tekjuviðmiðum.

Þessar fyrirhugaðar ráðstafanir falla vel að markmiði ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta og einföldun skattkerfisins og koma í rökréttu og beinu framhaldi af fyrri aðgerðum í þeim efnum sem hafa einmitt snúið að lægri launahópum og millitekjuhópum sem fengu á sig hvað mesta skattbyrðisaukningu á síðasta kjörtímabili.

Þessar áætlanir koma fram í skrefum, eins og áður hefur komið fram, og ég tel að það fari vel saman við ástand í efnahagsmálum heilt yfir. Skilvirkni kerfisins eykst og dregið er úr þeim óþægindum að einstaklingar þurfi að búa við leiðréttingar á álagningu eftir á. Með því að lækka viðmiðunarfjárhæð efra þrepsins og halda álagi á milli þrepanna því sem næst óbreyttu er dregið úr áhrifum skattalækkana á hátekjuhópa. Með því að hrinda þeim breytingum í framkvæmd á tveimur árum er dregið úr þensluáhrifum aðgerðanna yfir lengra tímabil.

Þá er jafnframt í frumvarpinu að finna áætlun um að tollar á fatnað og skó verði lagðir af við næstu áramót og aðrir tollar en á matvæli verði síðan afnumdir 1. janúar 2017. Tollar leggjast á tiltekin matvæli, alls ekki öll matvæli. Eftir breytingarnar munu þeir tollar standa undir um 0,3% af tekjum ríkisins. Tollar á þær vörur sem við innheimtum tolla af í dag skila um 1% af heildartekjum ríkisins. Það er almennt lagður 15% tollur á fatnað við innflutning til landsins. Aðrar vörur bera að jafnaði toll á bilinu 7,5%–15%. Eins og við vitum leggst svo virðisaukaskattur ofan á innflutningsverðið, þannig að þetta hefur líka áhrif hvað virðisaukaskattstekjurnar snertir.

Niðurfelling tolla af framangreindum vörum mun hafa umtalsverð áhrif á smásöluverð í landinu en heildaráhrif á vísitölu neysluverðs eru talin geta orðið allt að 0,5% til lækkunar 2016 og heildaráhrifin allt að 1% þegar ráðstafanirnar eru að fullu komnar til framkvæmda á árinu 2017. Niðurfelling tolla er allra hagur, aðgerð sem eykur ráðstöfunartekjur heimila og stuðlar að samkeppnishæfari verslun á Íslandi, enda er um að ræða 4,4 milljarða kr. beina lækkun á álagningu ríkisins á innfluttar vörur. Þetta eru neysluskattar, alveg eins og almennu vörugjöldin sem við höfum nú fellt niður sem tímabært var að losa sig undan, losa allan íslenskan almenning og verslun undan.

Innflutningstollar bitna nefnilega fyrst og fremst á neytendum. Þegar tollur er lagður á innflutta vöru hækkar verðið sem íslenskir neytendur þurfa að greiða fyrir vöruna og skilvirkni á innlendum samkeppnismarkaði dregst saman. Þannig hafa tollar almennt hamlandi áhrif á viðskipti á alþjóðavísu og að sama skapi eru innflutningstakmarkanir í viðskiptalöndum Íslands til þess fallnar að draga úr möguleikum íslenskra útflytjenda og frumkvöðla á að hagnast á vinnu sinni og hugviti. Það er því hagur Íslands, sem og annarra landa, að dregið sé sem mest, hvort heldur er einhliða eða tvíhliða, úr innflutningstakmörkunum á alþjóðavísu.

Samhliða þessum breytingum verður unnið að ýmsum kerfisbreytingum, til að mynda í skattumhverfi fyrirtækja, og áhersluverkefnum, m.a. til að skapa hvata til betri skilyrða fyrir nýsköpunarfyrirtæki og hvata fyrir erlenda sérfræðinga til að koma til Íslands og vinna hér á landi fyrir þá sem sækjast eftir kröftum þeirra. Þetta eru verkefni sem við munum áfram vinna að. Ég ætla undir lok ræðu minnar að nefna og halda til haga áður lögfestum breytingum sem hafa áhrif á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins og nefni þar fyrst orkuskatt sem fellur brott. Hann hefur runnið sitt skeið í árslok 2015 eftir alls sex ára gildistíma. Það eru rúmir 2 milljarðar sem þá munu falla niður á tekjuhliðinni.

Við lögfestum þrjú ár fram í tímann breytingar á tryggingagjaldi. Þetta er þriðja og síðasta skrefið af lækkunarferlinu og tryggingagjald lækkar þess vegna um næstu áramót um 0,14 prósentustig, en lækkunin er þá í heild orðin 0,34 prósentustig. Um tryggingagjaldið vil ég segja að sérstaklega var rætt við aðila vinnumarkaðarins um tryggingagjaldið í vor. Við gerðum frekar ráð fyrir því að leggja áherslu á tryggingagjald í þessu fjárlagafrumvarpi en tekjuskatt en þannig þróuðust mál að minni áhersla var lögð á lækkun tryggingagjalds af hálfu atvinnurekenda og það féll betur saman að gerð þeirra kjarasamninga, eins og þeir þróuðust, sem gerðir voru í vor að leggja áherslu á tekjuskattinn. Það var reyndar líka mjög í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar og þess vegna má segja að í þessu frumvarpi sé áherslan á tollana og tekjuskatt einstaklinga eilítið á kostnað frekari aðgerða til lækkunar á tryggingagjaldinu. Engu að síður tel ég að það eigi áfram að vera forgangsverkefni stjórnvalda að ryðja brautina fyrir frekari lækkun tryggingagjalds.

Virðisaukaskatturinn breikkar. Ýmsar ferðaþjónustugreinar koma inn í virðisaukaskattskerfið næsta janúar eins og fólksflutningar ýmiss konar, ferðaskrifstofur, heilsulindir og önnur slík starfsemi.

Virðulegur forseti. Ég hef í stórum dráttum farið yfir megininntak fjárlagafrumvarpsins, frumvarps sem mun styðja við stöðugan og sjálfbæran ríkisrekstur. Með ábyrgri fjármálastjórn, ásamt hagfelldum ytri skilyrðum í hagkerfinu, er fram undan gott jafnvægi í ríkisbúskapnum og tímabil niðurgreiðslu ríkisskulda að raunvirði er fram undan. Það er grundvallaratriði í langtímaáætlun ríkisfjármálanna. Þannig er lagður góður grunnur að ábyrgri stjórn efnahagsmála á Íslandi sem skilar íslensku samfélagi miklum ábata til framtíðar litið. Batnandi afkoma, lægri skuldir, léttari vaxtabyrði, (Forseti hringir.) þetta skapar ríkissjóði tækifæri til að takast á við hin mörgu aðkallandi þjóðfélagsverkefni sem við ræðum reglulega í þingsal. Ýmsar aðrar skuldbindingar skipta líka miklu máli.

Ég mælist til þess að málið gangi til hv. fjárlaganefndar að lokinni þessari umræðu.