145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hafi verið talsvert mikill misskilningur í umræðunni um hækkun á bótum almannatrygginga, að minnsta kosti miðað við það sem ég hef heyrt. Hækkunin sem verður um næstu áramót tekur tillit til þess sem vantar upp á hækkanir bóta á þessu ári þegar horft er til launaþróunar og hún tryggir að bæturnar hækka á næsta ári til jafns við launaþróun eins og henni er spáð á því ári. Við tökum að fullu tillit til launaþróunar eins og lög kveða á um, já.

Hér er spurt: Kom til greina að fara einhverja aðra leið en lögin kveða á um, t.d. að fara að miða við hækkun lægstu launa? Nei, við ræddum það ekki sérstaklega, enda kannast ég ekki við að aðrir flokkar hafi talað fyrir því. Þeir hafa að minnsta kosti ekki notað tímann sem þeir voru við völd í landinu til þess að breyta lögum á þann veg.

Ég er almennt þeirrar skoðunar að við getum gert betur í almannatryggingakerfinu. (Forseti hringir.) Þess vegna er endurskoðun laganna mikilvæg og þess vegna er svo mikilvægt að við höfum núna svigrúm (Forseti hringir.) til þess að stórhækka bæturnar, en málið verður ekki allt leyst í einu skrefi.