145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsögu hans í þessu máli. Hann nefndi stuttlega í ræðu sinni þá áætlun að selja 30% eignarhlut ríkisins í Landsbankanum og kemur fram í frumvarpinu að andvirði sölunnar eigi að nota til að greiða inn á skuldabréf og muni hafa í för með sér lægri vaxtakostnað fyrir ríkið. Í frumvarpinu kemur líka fram að Landsbankinn hefur skilað ríkissjóði verulegum arði á síðustu árum og gert er ráð fyrir 23,5 milljörðum í arð á árinu 2015 samkvæmt nýrri áætlun.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er að samstarfsflokkur hans, Framsóknarflokkurinn, samþykkti á landsfundi sínum í apríl síðastliðnum að það væri rétt að Landsbankinn yrði áfram í ríkiseigu, að hann ætti ekki að selja. Raunar fylgdi þeirri tillögu líka sú hugmynd að bankinn yrði samfélagsbanki og markmið hans væri ekki að hámarka arð. Þannig að mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er einhugur í ríkisstjórninni um þetta markmið? Hefur ráðherra stuðning samstarfsflokks síns um (Forseti hringir.) að selja þennan hlut í Landsbankanum?