145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt frá því að vinstri stjórnin kom fyrir í fjárlögum heimild til þess að selja hlut í Landsbankanum þá hefur þeirri stefnu verið fylgt hér af þinginu. Ég kannast ekki við annað en að það hafi runnið nokkuð auðveldlega í gegn með stuðningi allra flokka, heimildarákvæði til þess að geta selt 30% hlut í Landsbankanum. Ég tel að það sé mikilvægt, í fyrsta lagi til að greiða niður skuldir og í öðru lagi til að fá dreifðari eignaraðild að bankanum.

Varðandi þær hugmyndir sumra að bankinn verði áfram í eigu ríkisins þá er það mín skoðun að ríkið eigi að eiga um 40% í bankanum til lengri tíma og vera þannig aðaleigandi bankans og ráðandi hluthafi í bankanum. En ég tel heppilegt að við finnum fleiri eigendur að hinum 60%, komum þeim fjármunum sem við getum þannig losað um í betri vinnu fyrir landsmenn. Hugmyndir um að fjármálastofnanir eins og Landsbankinn sem er í samkeppni við aðra (Forseti hringir.) banka í landinu eigi að vera reknar með einhverju öðru en (Forseti hringir.) arðsemismarkmiði held ég að séu orðnar (Forseti hringir.) úreltar. Slíkar hugmyndir og slíkar tilraunir hafa kostað okkur gríðarlegar fjárhæðir. Ég nefni Íbúðalánasjóð til vitnis um það.