145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir sýn hans á þetta mál, þ.e. hvað hann vill gera hvað varðar sölu Landsbankans. Ég hefði getað dregið þá ályktun af frumvarpinu en ég spurði hæstv. ráðherra hvort hann nyti stuðnings samstarfsflokks síns sem hefur sett fram þá hugmynd sem hæstv. ráðherra telur úrelta — það er í sjálfu sér áhugavert að hæstv. fjármálaráðherra telji hugmyndir Framsóknarflokksins úreltar, þær eru ekki eldri en síðan í apríl á þessu ári — hvort hann njóti stuðnings Framsóknarflokksins sem samþykkti á sínum landsfundi að Landsbankinn ætti að starfa áfram í ríkiseigu og skyldi starfa sem samfélagsbanki. Það er auðvitað mjög mikilvægt að við sem ræðum þetta frumvarp áttum okkur á því hvort Framsóknarflokkurinn hafi lýst yfir stuðningi við þetta markmið frumvarpsins sem er ein undirstaða þess að ríkisfjármálaáætlun hæstv. ráðherra gangi eftir. Mér finnst mikilvægt að við á þinginu séum upplýst um það hvort fullur stuðningur sé við þessa fyrirætlan.