145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og óska honum til hamingju með fjárlagafrumvarpið. Þar er eitt og annað ágætt eins og að þau eru hallalaus og þar eru metnaðarfull áform um að greiða niður skuldir ríkissjóðs, sem ég fagna. Það er líka verið að auka framlög í rannsóknir og nýsköpun, það er gott. En það er líka eitt og annað sem ég gagnrýni og ég fer betur yfir það í ræðu minni á eftir.

Mig langar að spyrja spurninga sem varða tekjuhliðina. Ég fagna því að það á að fella niður tolla en það vekur athygli mína að einn veigamikill vöruliður sem er svolítið mikilvægur í neyslu heimilanna er algerlega undanskilinn og það eru matvæli. Af hverju er ekki hreyft við tollum á mat? Eru engin áform um það? Ef svo er, hvers vegna ekki? Og jafnframt: Hvað varð um áform um einföldun á virðisaukaskattskerfinu? Þeirra gætir ekkert í fjárlagafrumvarpinu.