145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Örstutt fyrst um virðisaukaskattinn. Það er kannski fyrst og fremst það sem gerist næst að við erum að breikka skattstofninn. Það var ein forsenda þess að við gátum lækkað efra þrepið niður í 24%, sem er það lægsta sem það hefur verið, að við höfum sett fleiri inn undir virðisaukaskattskerfið.

Varðandi tollana þá skiptir máli að finna fyrir stuðningi úr flokkum hér á þingi, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, við þau áform. Ég tel að þau séu löngu tímabær og að þessir neysluskattar séu orðnir úreltir, þessi neyslustýring sem í eina tíð skilaði mjög miklum tekjum fyrir ríkið, jafnvel stórum hluta ríkistekna, en það eru breyttir tímar.

Þegar spurt er um landbúnaðarkerfið þá tel ég nokkuð augljóst að það gilda einfaldlega önnur lögmál á því sviði. Þar getum við ekki gert breytingar án þess að kollvarpa framfærslugrundvelli heilla framleiðslugreina í landinu. Þetta er ekki eitthvert séríslenskt fyrirbrigði, þetta gildir á alþjóðavísu, enda eru tollar eitt erfiðasta viðfangsefni í alþjóðaviðræðum um breytingar í tollamálum, (Forseti hringir.) ég nefni til vitnis um það samninga Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, og mjög algengt að innlend framleiðsla (Forseti hringir.) sé vernduð að nokkru með slíkum reglum. En geta þær tekið breytingum yfir tíma? Að sjálfsögðu. (Forseti hringir.) Við erum einmitt að fara í eina slíka lotu núna og höfum gert í gegnum tíðina miklar breytingar.