145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það sem fyrrverandi fjárlaganefndarmaður að það getur verið flókið að grafa sig ofan í breytingar sem verða með fjárlögum hvers árs. Við gerum okkar besta í að stilla fram með myndrænum hætti og í töflum í fjárlagafrumvarpinu, bæði í fyrra og seinna heftinu, þróun yfir tímabil á lykilstærðum. Síðan getur fjárlaganefnd að sjálfsögðu farið enn dýpra og kallað eftir frekari upplýsingum.

Ég vek líka athygli á því að við opnuðum fyrir ekki löngu síðan hjá Fjársýslunni sérstakan vef þar sem hægt er að fara enn dýpra ofan í nánast einstaka innkaupaliði einstakra stofnana. Það er mikill upplýsingabrunnur fyrir þá sem vilja fara djúpt ofan í ríkisreikninga fyrri ára og skoða þá eftir málaflokkum, sviðum eða eftir ráðuneytum þess vegna. Við eigum að halda áfram á þeirri braut, ég er algerlega sammála því.