145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég undrast að hv. þingmaður skilji ekki hvað ég er að tala um. Ég segi eins og hv. þingmaður, ég fagna því að við skulum hafa náð slíkum árangri frá hruni en ég vil að gæðunum sé skipt með réttlátari hætti. Við jafnaðarmenn teljum ekki ásættanlegt að laun almannatrygginga séu lægri en lágmarkslaun í landinu. Er erfitt að skilja það? Er erfitt að átta sig á því að það er óásættanlegt? Það er óásættanlegt fyrir þá sem reiða sig á bætur. Þegar við erum nú komin á þann stað að við erum farin að skila afgangi, við erum farin að greiða niður skuldir, þá eigum við um leið að passa að jöfnuður haldist í samfélaginu og þeir sem þurfa að reiða sig á bætur séu ekki skildir eftir á köldum klaka undir lágmarkslaunum Það er stefna sem gengur ekki. Ég tek undir með hv. þingmanni að það þurfi ræða betur, því að þetta er niðurstaða sem verður aldrei samþykkt.