145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að vísu með ákveðna markmiðssetningu í heilbrigðislögunum. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að við ættum að fara dýpra í það. En frumvarpið um opinber fjármál mun ekki leysa allan vanda því að auðvitað þurfum við að haga samræðum okkar hér og áætlunum þannig að þær fyrirætlanir sem þar eru séu ekki bara orðin tóm. Það kemur ekki í veg fyrir það að við tölum um markmiðssetningu. Ég held að við eigum að bera okkur saman við önnur lönd þegar kemur að lyfjunum. Ég er ekki viss um að fullyrðingar hv. þingmanns standist en hins vegar er sjálfsagt og mjög mikilvægt að fara yfir það því að það gætir svolítils misskilnings í umræðunni.

Varðandi jarðefnaeldsneytið, virðulegi forseti, þá er það þannig að við erum fyrirmynd annarra þjóða út af þeim þáttum sem hv. þingmaður nefndi, t.d. húshitun og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Það er auðvitað mjög gott. En ástæðan fyrir því að við notum mikið af jarðefnaeldsneyti, ég hugsa að við notum mest hlutfallslega, við og Singapúr, er út af flutningum okkar, því sem snýr að skipum og flugvélum. Mér vitanlega eru ekki að detta inn tæknibreytingar á því sviði en vonandi verður það og vonandi getum við knúið bílaflotann okkar hér heima meira með rafmagni og öðrum slíkum þáttum sem við framleiðum hér.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það er ekki sjálfgefið eða eitthvað sem gerist af sjálfu sér að forgangsraða í þágu heilbrigðismála. Mér finnst mjög mikilvægt að menn séu meðvitaðir um það.

Ég spurði svo hv. þingmann hvort honum fyndist eðlilegt að greiða niður vexti með svokölluðum vaxtabótum sem eru augljóslega skuldhvetjandi og eru ein af ástæðunum fyrir því að við höfum lent í þessum vandræðum. Það er kannski ágætt að spyrja hann líka hvort honum finnist eðlilegt, af því að hann er á móti því að greiða niður húsnæðisskuldir fólks, (Forseti hringir.) að greiða niður vexti sérstaks húsnæðisbanka ríkisins.