145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar þá að spyrja í seinna andsvari mínu hvort hv. þingmaður telji að tillögur hæstv. húsnæðismálaráðherra ráðist að kjarna vandans og hvort hægt sé að vinna á vandanum yfir stuttan tíma sem hv. þingmaður lýsti hér áðan. Eða er þetta tíu ára plan? Leigjendur standa frammi fyrir vandamálinu í dag og finna það á eigin kroppi.

Ef hv. þingmaður hefur tíma í seinna andsvari óska ég eftir því að hann gefi mér viðbrögð við forsíðu Fréttablaðsins þar sem talað er um að það vanti 1.400 millj. kr. til þess að koma í veg fyrir myglusvepp í húsnæði Landspítalans. Við í stjórnarandstöðunni höfum gagnrýnt að of fáar krónur hafi farið í viðhald á Landspítalanum. Mér sýnist, ef marka má forsíðu Fréttablaðsins,að ekki sé brugðist við þeirri gagnrýni í fjárlagafrumvarpinu.