145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og tek undir það sem hér hefur verið sagt. Auðvitað er markmið okkar að skila ríkisfjármálunum með afgangi. Svo er spurning hvernig við nýtum fjármagnið.

Ég ætla aðeins að taka umræðuna áfram, sem var á milli síðustu þingmanna sem hér töluðu, þ.e. um húsnæðismálin. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra lítur svo á að þetta sé fullfjármagnað. Ég lít ekki svo á að 1.500 milljónir geti fullfjármagnað þörfina sem í dag. Mér finnst hún taka frekar stórt upp í sig hvað það varðar.

Hv. þingmaður nefndi hér áðan að byggingarkostnaður væri meðal annars að hækka vegna reglugerða. Mig langar að spyrja hann hvað það væri sem helst mætti lagfæra þar að hans mati. Ég tek undir það að mér finnst ekki vera ráðist að rót vandans. Það hafa ekki komið fram beinskeyttar tillögur þar um af hálfu félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún lagði fram eitt frumvarp af fjórum í lok þings þannig að við eigum eftir að sjá einhverja mynd á því.

Hvernig telur þingmaðurinn að komið sé til móts við landsbyggðina í þeim húsnæðislausnartillögum sem ríkisstjórnin ætlar hér að leggja fram? Til dæmis er byggingarkostnaðurinn, sem hér var nefndur, töluverður og jafn mikill þar og á höfuðborgarsvæðinu. Svo flytur maður inn og þá hríðfellur fasteignarverðið vegna þess að fasteignamatið er margfalt lægra þar en á höfuðborgarsvæðinu. Það verður nánast eignarupptaka um leið og viðkomandi flytur inn. Getur þingmaðurinn séð fyrir sér að þetta sé eitthvað sem hægt er að laga til að jafna aðstöðu fólks og leysa í rauninni þann vanda sem verður til við þetta?