145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er akkúrat það sem við þurfum að fást við að jafna þann aðstöðumun sem landsbyggðin býr við. Með hvaða hætti? Ég hef svo sem ekki lausn á því en þetta er verulegt vandamál. Af því að þingmaðurinn nefndi að byggja þá þekki ég að allt of víða hefur ekkert verið byggt og er það ekki endilega á köldu svæði eða jaðarsvæði. Heima hjá mér til dæmis hefur ekki verið byggt óralengi íbúðarhúsnæði og eru margar ástæður fyrir því.

Þingmaðurinn hefur talað svolítið um vaxtabætur og að honum finnist þær ekki góður kostur, honum finnist það eitthvað sem eigi helst ekki að gera og hvetji til skuldasöfnunar. Hvernig eru þær frábrugðnar væntanlegum húsnæðisbótum, sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra ætlar að leggja til, og húsaleigubótunum sem honum þykir skárri en vaxtabæturnar?

Svo er það með séreignarsparnaðinn af því að hv. þingmaður er mjög hlynntur því að nota hann til að kaupa sína fyrstu íbúð — hvað með þá sem hafa ekki færi á því að safna sér? Ég er ekki hrifin af þessu inngripi inn í séreignarsparnaðinn og hefði viljað að hann fengi bara að vera í friði til að búa til lífeyrissjóð síðar meir en það er annað mál. Þeir sem hafa ekki tök eða tækifæri á því að safna sér, hvað sér hann til ráða fyrir það fólk?

Svo langar mig í lokin, af því að hann minntist á fjarskiptin og ljósleiðaravæðinguna, að nefna að það urðu mér mikil vonbrigði að sjá í frumvarpinu svona lága fjárhæð í það. Ég trúi því að við eigum eftir að heyra það í fjárlaganefnd og landsbyggðin verði mjög ósátt við að ekki sé farið í þetta af fullum þunga vegna þess að ferðaþjónustan er í gríðarlega mikilli áframhaldandi uppsveiflu, eins og við þekkjum, og þetta skiptir því miklu máli fyrir landsbyggðina sem og vegamálin og annað sem fær ekki brautargengi í þessum fjárlögum.