145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ræðuna og sérstaklega það í henni sem vísar á það sem við getum verið sammála um, en ég tek því líka fagnandi að geta átt orðastað um önnur atriði og ætla aðeins að koma inn á bætur almannatrygginga. Mér finnst mikilvægt að geta átt samtal um það mál. Það er svo stórt mál að við höfum komið okkur saman um að vera með þverpólitískt samstarf og náið samstarf við hagsmunaaðila til að skoða almannatryggingakerfið.

Þegar ég tala um bótavæðingu var ég ekki síst að vísa til þeirrar stefnu Samfylkingarinnar sem mér finnst hafa birst oft og títt hér í þingsal að atvinnuleysisbætur megi gjarnan vera jafn háar lægstu launum, mér finnst það ekki góð stefna. Ég sé ekki annað á þessu nýframkomna frumvarpi en að verið sé að tala um að allar bætur almannatrygginga eigi að hækka, þar með taldar atvinnuleysisbætur, upp í 300 þúsund. Þannig las ég frumvarpið en það kann að vera rangt í það lesið.

Engu að síður þegar við horfum fram til ársins 2018 miðað við þær áætlanir sem eru í kortunum núna þá munu bætur hækka mjög verulega, ekki bara á næsta ári heldur á árunum þar á eftir. Þær verða komnar upp undir um 270 þúsund á árinu 2018. Hér kemur Samfylkingin og segir: Það þarf að vera 300 þúsund. Á þessu er þó nokkuð mikill munur. Ef við færum með þessi framfærsluviðmið og aðrar bætur, eins og ég hef lesið frumvarpið, upp í 300 þúsund væri það um 40% hækkun á almannatryggingaútgjöldum á Íslandi, um 40% hækkun. Mér sýnist að útgjöldin yrðu um 40 milljörðum meiri, mjög gróft mat, og þá sprettur auðvitað fram sú spurning: Hvernig á að fjármagna þetta allt saman? Menn tala síðan á sama tíma um að tryggingagjaldið, gjaldið sem á einmitt að standa undir fjármögnun þessa kerfis að hluta til, eigi endilega að lækka á sama tíma, en ef menn ætluðu að halda sömu fjármögnun kerfisins þá þyrfti það í raun og veru að hækka. (Forseti hringir.) Ef menn ætla að fara í 40% hækkun bóta á þessum tíma eru menn í raun og veru að tala fyrir hækkun tryggingagjalds. Eða á bara að grípa þessa fjármuni einhvers staðar úr loftinu?