145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að ekki þyrfti að taka langa umræðu um það hér í þingsal að það skiptir máli hvernig hvatarnir eru í þeim kerfum sem við búum til og að það sé hvati innbyggður í kerfin til að bjarga sér geti maður gert það. Það er afstaða mín varðandi atvinnuleysisbæturnar að við þurfum að vera með mjög þéttriðið stuðningskerfi þegar atvinnuleysi knýr dyra hjá okkur. Við þurfum að nota starfsendurhæfingu og öll slík úrræði og bótakerfin eiga ekki að vera þannig að þeir sem eru komnir þar inn geti verið þar, eins og við höfðum til skamms tíma, í þrjú ár án þess að raunverulegur hvati sé til að komast út á vinnumarkaðinn. Það er mín skoðun.

Síðan er það bara með Samfylkinguna í þessum málaflokki og almennt í bótamálum að menn koma hingað og segja: Bæturnar eiga að fara upp í 300 þúsund. Það sem þeir gerðu þegar þeir vorum við völd var að þeir skertu bæturnar, þeir innleiddu meiri skerðingar. Við höfum verið að vinda ofan af því. Við erum að fara núna í mestu hækkun bótanna sem hefur átt sér stað og þá segja menn sem áður skertu bæturnar: Þetta er alls ekki nóg. Er staðreyndin ekki sú að við erum að stórhækka bæturnar? Við erum að stórhækka kaupmátt þeirra sem þurfa að reiða sig á almannatryggingakerfið og það er vel, um það erum við sammála. Við getum síðan endalaust farið í kapphlaup um hvað er nóg. En það er frekar ódýr umræða að segja: Það þarf bara að vera aðeins meira. Aðalatriðið er að við erum að stórauka kaupmátt þeirra sem þurfa að treysta á almannatryggingakerfið og því ber að fagna. Við eigum endilega að stefna að því að gera betur en við eigum ekki að fara í einhver yfirboð og mér finnst að þeir sem hafa lítið annað haft fram að færa á þessu sviðinu en að skerða bæturnar á undanförnum árum hafi ekki innstæður fyrir því að koma með mikil yfirboð.

Svo ætla ég bara að segja um landbúnaðarkerfið: Var Samfylkingin ekki í ríkisstjórn árin 2007 og 2008 og 2009 líka, jafnvel 2010, 2011 og 2012 og fram á árið 2013? En nú segja menn: Það þarf náttúrlega að kollvarpa landbúnaðarkerfinu. Af hverju var þessi langi valdatími ekki notaður til að koma með einhverjar kollsteypur í þeim málum sem menn virðast vera farnir að tala um núna? (Forseti hringir.) Ætla menn virkilega að neita því að ef á að fara í einhverjar meiri háttar breytingar á tollum í landbúnaði að (Forseti hringir.) það raski grundvelli framleiðslunnar í landinu? Hver sér það ekki?

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmenn að gæta að tímamörkum.)