145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit bara ekki hvar hv. þingmaður hefur verið. Hann spyr um aðrar tillögur, en við vorum að setja peninga inn á húsnæðisskuldir einstaklinga með beinum hætti. Það er önnur hugmynd og hún hefur verið framkvæmd. (Gripið fram í.) Ef menn halda því fram að meðaltekjufólk hafi ekki notið þessa þá hvet ég menn til að skoða tölur. Menn geta tekið einhver smá jaðardæmi og sagt: Hér fékk einhver ríkur einstaklingur þetta. Það er ekki stóra málið. Stóra málið er allur almenningur. Sömuleiðis leyfðum við fólki að nýta séreignarsparnaðarleiðina sem þýðir að fólk fær útgreiðslu, skattfrjálst, líka framlag frá atvinnurekandanum, til að greiða inn á húsnæðisskuldir sínar. Og hvað þýðir það? Það þarf að greiða minni vexti og minni afborganir. Og hvað þýðir það? Það hefur þær afleiðingar að vaxtabæturnar eru lægri. En hv. þingmanni finnst það vera sérstakt markmið að greiða út vaxtabætur og þar skilur á milli mín og hv. þingmanns.

Ég tel að það sé sérstakt markmið að fólkið fái að eignast húsnæði sitt, að fólkið geti lifað góðu lífi og það er enginn vafi á því að ef við hefðum nýtt alla þá fjármuni sem við höfum t.d. sett í Íbúðalánasjóð — við erum búin að setja fjármuni sem nema heilum Landspítala í sjóðinn og að stærstum hluta óþarfa — til að greiða niður húsnæðisskuldir landsmanna eða hjálpa fólki að kaupa sér sína fyrstu íbúð væri almenningur í þessu landi í miklu betri málum og reyndar ríkissjóður líka, því það er markmiðið. Auðvitað væri best ef vaxtabætur væru ekki til vegna þess að fólkið þyrfti ekki á því að halda, hér væri vaxtastig lágt og menn skulduðu lítið. Við höfum ekki komist þangað en það hlýtur að vera gleðiefni, ekki slæmt, þegar fólk greiðir minni vexti en áður og þegar fólk skuldar minna í húsnæðinu sínu en áður. Það er það sem er sýnt í tölum og staðreyndum í fylgiriti fjármálaráðuneytisins með fjárlagafrumvarpinu.