145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vaxtabótakerfið er nú ekki verra en svo að það hefur stutt við stöðuga lækkun skulda heimilanna alveg frá hruni og var mjög mikilvægur þáttur í framfærslustuðningi við fólk á erfiðum tímum í hruninu. Vaxtabætur voru fjórfalt það sem þær eru núna árið 2011. Hv. þingmaður kemur hér og talar eins og millifærslan mikla sé eitthvert viðvarandi verkefni. Ætlar ríkisstjórnin þá að gera það reglulega að setja peninga inn til að hjálpa fólki að greiða niður höfuðstólinn sinn?

Árið 2010 tók fólk lán og það hefur ekki fengið krónu í niðurfellingu eða leiðréttingu eða hvað sem þetta bixerí heitir nú allt saman, það fólk er núna vegna hækkandi launa að sturtast út úr vaxtabótakerfinu og er án nokkurs stuðnings. Það fór á sínum tíma í greiðslumat á þeim forsendum að það fengi vaxtabætur og með því að verðbæta ekki viðmið í vaxtabótakerfinu er ríkisstjórnin að svipta þetta fólk aðstoð sem það gekk út frá í upphafi. Er einhver að tala um forsendubrest, hv. þingmaður? Þessi ríkisstjórn kemur aftan að öllu meðaltekjufólki sem hefur keypt frá hruni og hún kemur síðan í veg fyrir að önnur stuðningskerfi sem gera ungu fólki kleift að koma undir sig fótunum virki sem skyldi á sama tíma vegna þess að barnabótakerfið er ekki heldur verðbætt og þar eru skerðingarmörkin mjög harkaleg og vegna þess að viðmiðunarmörk í fæðingarorlofinu hafa ekki verið hækkuð. Þannig að ef fólk horfir á skilaboðin frá þessari ríkisstjórn, þá eru þau alveg skýr: Haldið þið áfram að flýja land.