145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ræðuna. Áður en ég tala um efnisatriði fjárlagafrumvarpsins langar mig aðeins til að benda á eitt sem ég vil að haft verði í huga þegar verið er að gefa út fjárlagafrumvarpið og það er til dæmis að setja efnisyfirlit í þessa þykku bók (Gripið fram í: Nei, það er …) og gera það aðeins betur úr garði þannig að auðvelt sé að fletta upp í frumvarpinu. Það fyrsta sem við þingmenn gerum og aðrir þegar þeir glugga í það, er yfirleitt að setja fullt af miðum vegna þess að þetta er ekki eins gott og það ætti að vera. Mér finnst líka mjög mikið af endurtekningum og skrýtið að ný ráðuneyti skuli ekki byrja á hægri síðu efst. Ég býð fram aðstoð mína fyrir gerð fjárlagafrumvarps næsta árs. Það er hægt að gera þetta læsilegra og skýrara og hnitmiðaðra. Það sama á við um litla bindið. Það er þannig að maður verður hreinlega að lesa þetta frá orði til orðs, það er ekkert hægt að renna yfir þetta, og ég held að þetta séu um 630 bls. allt saman. Stundum fæ ég á tilfinninguna að það sé verið að hafa orðagjálfur til þess að fela eitthvað. Mér finnst það algjör óþarfi. Að öðru leyti vil ég segja að það eru mjög góðar skýringar í frumvarpinu en það væri hægt að gera það betur úr garði.

Ég ætla aðeins að tala um það sem mér finnst vera jákvætt. Ég er algjörlega fylgjandi því að afnema tolla á fatnað og skó, sem er næsta skrefið í afnámi tolla. Mér finnst það bara spurning um jafnræði að fólk sem hefur ekki tök á að fara til útlanda og versla á betri kjörum geti gert það hér heima. Það er til mikils að vinna að styrkja innlenda verslun. Það kemur ekki fram í frumvarpinu og er kannski erfitt að reikna út að hversu miklu leyti þetta muni auka verslun, þar segir að tekjutap verði af þessari breytingu, en á móti kemur væntanlega meiri verslun og þá auknar tekjur, sérstaklega í formi virðisaukaskatts. Ég vil þó leggja mikla áherslu á eitt. Það er að þegar farið er í svona framkvæmdir sé tryggt einhvers konar eftirlit eða átak til þess að ávinningurinn skili sér sem best til neytenda. Það var ekki gert síðast þegar virðisaukaskattsbreytingarnar voru gerðar á meðal annars matvælum og öðru. Það var hins vegar gert árið 2007 þegar virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður verulega. Það voru settar einhverjar milljónir til verðlagseftirlits ASÍ, Neytendastofu og Neytendasamtakanna til að fylgjast með markaðnum í nokkra mánuði áður og þegar breytingarnar fóru í gegn var fylgst með því að lækkunin skilaði sér til neytenda. Það er auðvitað þannig að seljendur vöru og þjónustu leggja eins hátt álag á vöruna og þeir komast upp með. Auðvitað er það neytenda að fylgjast með og velja hagstæðasta kostinn, en þegar farið er í svona breytingar getur verið erfitt fyrir einstakan neytanda að átta sig á öllum markaðnum. Ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég sá að í fjárlagafrumvarpinu virtist ekki vera gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til t.d. Neytendasamtakanna eða Neytendastofu í þetta verkefni. Ég mun tala meira um það síðar. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt. Þetta eru smápeningar sem geta tryggt að neytendur njóti ávinningsins.

Ég tek einnig undir það sem komið hefur fram hér í dag um afnám tolla að við eigum líka að horfa til matvæla. Það er enginn að tala um einhverja kollsteypu eða að afnema alla tolla á morgun. Það þyrfti alltaf að gera þetta yfir eitthvert tímabil, hægt og bítandi. Fyrsta skrefið væri auðvitað að afnema tolla á matvæli sem eru ekki framleidd á Íslandi. Parmesanostur er ekki framleiddur á Íslandi. Af hverju má ég þá ekki bara kaupa hann? Hann er ekki í samkeppni við neina aðra vöru. Af hverju á að leggja toll á parmesanost, sem dæmi? Þetta gæti verið fyrsta skrefið og fyrir því munum við tala í Bjartri framtíð.

Ég tek líka eftir stóru máli sem eru lífeyrissjóðsskuldbindingar ríkisins. Ég held ég fari rétt með að í fjármálaáætluninni sem var kynnt í vor var gert ráð fyrir að greiða ætti inn á skuldbindingarnar. Ég man að við í minni hlutanum spurðum hæstv. ráðherra hvort það ætti að nota afgang til að greiða inn á þær eða taka lán vegna þess að það var ekki alveg skýrt í textanum. Ég skildi í rauninni aldrei svarið. Ég sé ekki — ég tek það fram að ég hef ekki lesið þetta staf fyrir staf — að hér sé gert ráð fyrir innborgun á lífeyrisskuldbindingar og mér finnst það athyglisvert. Ég er ánægð með að við ætlum aðeins að létta á sköttum, tollum og álögum en ég mundi frekar vilja bíða aðeins með það og fara í þetta stóra verkefni vegna þess að þessar skuldbindingar eru gríðarlegar og þegar þær falla á af fullum þunga erum við að tala um marga milljarða á ári sem ríkið þarf að greiða. Þannig að þetta er ekkert smámál. Mér finnst við vera að ýta þessu á undan okkur og mér finnst það óábyrgt.

Annað stórt mál er einföldun á virðisaukaskattskerfinu sem hófst hjá þessari ríkisstjórn. Einföldunin var í sjálfu sér engin einföldun, það var bara verið að breyta aðeins skattþrepunum, þau eru eftir sem áður tvö. Ég sé ekki neitt framhald á þeirri vinnu. Við í Bjartri framtíð gætum alveg séð fyrir okkur eitt virðisaukaskattsþrep á endanum, en við kölluðum sérstaklega eftir því að fá að sjá hvert væri markmiðið, hvert við værum að stefna og á hve mörgum árum. Það er eins og fyrsta skrefið hafi verið tekið og síðan hafi menn bara stoppað. Þessu finnst mér þurfa að svara hérna. Fólst þessi einföldun í því að fara úr 7% í 14%? Er það eina einföldunin? Mér finnst þetta ekki útskýrt nógu vel.

Við þurfum einnig að skoða vel tillögur um að setja tekjuskattinn í tvö þrep. Ég er skeptísk á það en ætla þó að skoða þetta með opnum huga. Þetta finnst mér eitthvað sem við þurfum að skoða virkilega vel. Eins og ég skil þetta þá fær millistéttin hvað mest, en kannski þeir sem hafa hærri tekjur í þeim hópi. Ég áskil mér rétt til að breyta um skoðun en ég er skeptísk á þetta við fyrstu sýn.

Ég verð að taka undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni, ég sakna framsóknarmanna í þessari umræðu. Ég sé enga vini mína í Framsóknarflokknum hér eða að þeir hafi komið upp í ræðustól. Maður fær á tilfinninguna að þetta sé fjárlagafrumvarp Sjálfstæðisflokksins sem við ræðum hér.