145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:51]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra — hvar sem hann nú er. Nú tel ég mig hafa ágætan lesskilning og það á ýmsum tungumálum, en ég skil þessi fjárlög ekki. Þau eru illa sett fram, of illa sett fram til að hægt sé að hafa not af þeim. Þessi blessaða bók, sem er á við góða Harry Potter bók að þykkt, er til dæmis ekki með atriðaorðaskrá, ekki með efnisyfirlit og það er engin ástæða fyrir því að svo sé ekki. Við erum komin fram á 21. öldina og hægt er að gera þetta frekar auðveldlega. Ég sé enga ástæðu til að ekki sé hægt að nota þennan blessaða efnisyfirlita-fídus, sem er til í word-skjalinu eða í hvaða forriti sem fjárlögin erum samin í. Það er eins og þetta hafi verið vísvitandi gert, að gera fjárlögin sem ógagnsæjust og óaðgengileg.

Af hverju eru fjárlögin ekki sett fram eins og til dæmis er gert í Danmörku? Af hverju er ekki rökstuðningur fyrir hverjum fjárlið fyrir sig tekinn fyrir framan hverja töflu í sundurliðuninni? Það er tilviljunum háð hvort þingmaður getur fundið liðinn í sundurliðuninni í meginmáli athugasemda í fjárlagafrumvarpinu.

Sem dæmi er liður 04-801, þar sem fjallað er um greiðslur vegna mjólkurframleiðslu, þar sem gjöld eru samtals 6.759 millj. kr. Þarna er engan rökstuðning að finna. Einu upplýsingarnar um liðinn er að finna á bls. 320 með því að ýta á Ctrl+F í pdf-skjalinu og leita, en það er í lið þar sem fjallað er um Matvælastofnun. Þarna er því engan rökstuðning að finna fyrir því hvernig skattfé er útdeilt í þann lið, og ég skil það ekki. Ég skil ekki hvernig þessi vinnubrögð eiga að viðgangast og það er eins og þetta sé eðlilegt.

Ekkert stendur til dæmis um það hvað óframleiðslutengdur stuðningur er. Hvað er það? Ég væri rosalega til í að fá að vita hvað það orð þýðir. Nú er ég nýkomin á þing. Það getur vel verið að ég þurfi að læra ýmislegt en að sama skapi finnst mér þetta mjög áhugavert. Nú er ég ekki að segja að þetta sé ekki nauðsynlegur liður heldur er ég eingöngu að taka þetta sem dæmi um hversu ógagnsæ fjárlögin eru. Ekkert meira er að finna um þennan lið í meginmálinu. Þar eru engar upplýsingar, ekki neitt.

Þessi blessaða bók, sem er rétt rúmlega 500 blaðsíður, er ekki skáldsaga, þetta eru fjárlögin okkar. Að þau séu svona illa sett upp, að því er virðist, með löngum texta sem fjallar um mismunandi liði sundurliðunarinnar — þarna er beinlínis verið að koma í veg fyrir að venjulegt fólk skilji hvað er í gangi. Háttvirtir kollegar mínir hér á þingi fórna höndum, svo að ég veit að þetta er ekki bara ég, sem er nýkomin inn á þing.

Ég kalla því eftir, til hæstv. fjármálaráðherra sem situr hér, eða ekki, að hægt verði að nálgast þetta á aðgengilegu formi. Og það þarf líka að gefa út hráu gögnin. Það er ekki nóg að gefa þetta út eins og þetta sé pappírsforrit því að þarna er unnið í tölvu og engin ástæða fyrir því að CSV-fælunum, eða einhverju álíka, sé ekki hent út á alnetið sömuleiðis. Þá gæti fólk farið að vinna aðeins meira í þessu. Nokkrar vel valdar töflur, sem eru gerðar, er ekki nóg.

Það er eins og hæstv. fjármálaráðherra vilji ekki að fólk skilji hvað hér fer fram. Það fyrsta sem mér dettur í hug er Chewbacca úr Star Wars sem segir rosalega margt og rosalega mikið án þess að mikið gagn sé að. Stundum er betra að segja aðeins minna og hafa það nákvæmara til að hinn almenni þingmaður og borgari skilji hvað er í gangi. Það er ekki eins og hver þingmaður hafi þrjá aðstoðarmenn sem geta kafað ofan í þetta með honum.

Miðað við það umfang sem fjárlögin eru, og hve mikilvæg þau eru fyrir Ísland í heild sinni, þá hlýtur það að vera sanngjörn og tímabær krafa að gera þau aðgengilegri. Vonandi tekur hæstv. fjármálaráðherra það til sín og fái áhuga á að útfæra betur.