145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið skammaður af virðulegum forseta fyrir að segja ensk orð í þessum ræðustóli, en það er augljóslega búið. Ég kannast við eitthvað af þessum hugtökum en ætla ekki að fara að kenna þingheimi hvernig á að nota þetta, ég er enginn sérfræðingur á því sviði.

Jú, jú, gott og vel, ég ætla ekki að fara að deila við hv. þingmann. Mér finnst þetta hins vegar ósanngjarnt þegar hæstv. ráðherra reynir hvað eftir annað að koma í gegn frumvarpi sem hefur það að markmiði — burt séð frá „headings“, þótt ég vilji ekki gera lítið úr því, og „sub“-hvað það nú er, (Gripið fram í.) „subtitle“ og hvað þetta er, ég vil ekki gera lítið úr því — að hafa þetta skýrt, þannig að við sjáum það almennilega. Það vantar.

Ég held að í þessu eins og í öðru eigum við fara alla leið. Við erum hér með frumvarp sem hefur það meðal annars að markmiði að þessi þáttur verði tryggður. Ég vil miklu frekar að við einbeitum okkur að því og keyrum það í gegn þannig að við tökum á málinu í heild sinni, þó að örugglega megi krunka í þau hugtök sem ég nefndi áðan og ætla ekki að nefna aftur.

Það er það sem ég legg áherslu á og vek athygli á. Ég vona að hv. þingmaður muni leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að klára frumvarpið um opinber fjármál. Vonandi næst sem breiðust samstaða um það þannig að við flest, ekki aðeins hv. þingmenn heldur allur almenningur, getum glöggvað okkur betur á þeim mikilvæga málaflokki sem fjárlögin eru, getum sett okkur inn í þau og haft skoðanir byggðar á þeim staðreyndum sem liggja fyrir.

Við skulum vera sammála um að vera ósammála um að kenna hæstv. fjármálaráðherra um þetta en ég vil vekja athygli á því að hann hefur ítrekað flutt frumvarp sem ég tel að við séum sammála um að sé til bóta, í það minnsta hvað þennan þátt varðar. Ég vona að hv. þingmaður muni styðja það þegar sú vinna fer af stað nú í haust.