145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:03]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil eins og margir aðrir sem hér hafa talað byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir undirbúning að fjárlagafrumvarpi og framsögu hans fyrir því í dag. Það er mjög mikilvægt að við séum að ná slíkum tökum á ríkisfjármálum sem frumvarpið ber vitni um og hefur enginn sagt annað hér í þingsal og í þingræðum um þetta mikilvæga mál en að menn séu sammála um að eitt það mikilvægasta sem við gerum sé að ná góðum tökum á ríkisfjármálum, stöðugleika í ríkisrekstri. Það er til hagsbóta fyrir okkur öll.

Þegar hér er komið sögu í ræðu minni skilja eðlilega leiðir á milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka um áherslur og er ekkert óeðlilegt við það. Hér gráta sumir horfna tekjustofna og horfna skatta. Um það allt saman má hafa mörg orð og vísa til þess hversu góðir þeir voru og mikilvægir. En stefnan liggur fyrir og mikilvægasta stefnan er sú að hér er kominn á stöðugleiki, hér er afgangur í ríkisfjármálum og nú er hægt að byrja á því sem við höfum lengi beðið eftir, þ.e. að bæta í mikilvæga málaflokka, eins og tæpt hefur verið á í ræðum í dag. Hér eru stóraukin framlög til velferðarmála, til húsnæðismála, til heilbrigðismála og ber fjárlagafrumvarpið vitni um það.

Ég vil vekja athygli á því að í frumvarpinu eru málaflokkar eins og að bæta í heimahjúkrun á landsbyggðinni. Verið er að bæta í málaflokk hjúkrunarheimila, áætlun um fjölgun hjúkrunarrýma og uppbyggingu hjúkrunarheimila. Uppi eru áform og tillögur um að auka framlög til vísinda- og tækniþróunarstarfs og svo mætti lengi telja. Það eru tillögur um úrbætur í dómsmálum og svo getum við nefnt áherslur viðkomandi ráðherra í einstaka fagráðuneytum og þessa stjórnarmeirihluta sem birtast í fjárlagafrumvarpinu.

Það hefur einhvern veginn orðið þannig að flest mál eru landbúnaðarmál og í ólíklegustu málaflokkum ræðum við um landbúnað, m.a. í ágætri ræðu sem flutt var hér áðan. Hv. þingmaður talaði um óskýrleika og kannski meira um upplýsingatækni og bókasafnsfræði en fjárlögin sjálf, en það er rétt þegar hér er komið í umræðu um fjárlagafrumvarpið, að ræða svolítið um það stóra mál sem landbúnaður er og þær umræður sem spunnist hafa um það að fella niður tolla. Ég tek fram að tollar eru ekki sjálfstætt markmið í þessu frekar en öðru. Í öðru lagi eru tollar og álagning þeirra ekki síður bein afleiðing af atvinnustefnu stjórnvalda hverju sinni. Við höfðum áður atvinnustefnu um að beita tollum til að styðja við ákveðna framleiðslu en höfum nú horfið frá því að langmestu leyti. Og þegar umræðan berst að tollum á matvæli og sérstaklega á landbúnaðarvörur finnst mér oft vanta heilmikið upp á að menn hafi yfirsýn yfir málaflokkinn til þess að geta fjallað um hann af sanngirni, þ.e. af meiri sanngirni en mér finnst oft vera gert. Ég ætla ekki að taka dýpra í árinni en þetta varðandi aðfinnslur um málflutning annarra manna.

Það er einfaldlega þannig, eins og kom reyndar ágætlega fram í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að Ísland býr við mikið frjálslyndi varðandi tolla á landbúnaðarvörur. Það er mjög vel varðveitt leyndarmál í opinberri umræðu á Íslandi að svo sé. Megnið af landbúnaðarvörum heimsins flytjum við inn án tolla. Það er veruleikinn, en það er líka mjög vel varðveitt leyndarmál á Íslandi að þegar við tölum um vöruverð, tolla, framfærslu fólks og útgjöld heimila þá gleymist líka að segja frá því að í þeim hagtölum sem hingað berast og unnar eru á alþjóðavísu kemur fram að þær landbúnaðarvörur sem fluttar eru hér inn án tolla eru hlutfallslega dýrari á Íslandi en þær vörur sem framleiddar eru með hinum alræmdu íslensku tollum sem notaðir eru til að vernda innlenda framleiðslu.

Það vildi ég segja í þessari umræðu um áform meiri hlutans um að fella niður og einfalda tollakerfið. En þegar menn rýna í kerfið held ég að það komi mörgum á óvart hversu litlar tekjur ríkissjóður fær raunverulega af þeim tollum miðað við umfang þess kerfis sem rekið er í kringum þá. Það má hins vegar ná margvíslegum árangri í að lækka vöruverð með öðrum hætti. Þó að ég sé kannski ekki frægastur talsmanna hagsmuna verslunarinnar innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins vil ég segja að ég held að það aukna frelsi sem fylgir þessum einföldunum geti komið verslun til góða því að við þurfum að efla þá atvinnugrein eins og svo margar aðrar. En eins og ég segi má ná árangri með því að lækka vöruverð og framfærslu heimilanna með margvíslegum hætti. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá því fyrr á þessu ári er fjallað um ávöxtunarkröfu eigenda smásöluverslunar. Það er mjög fróðleg lesning að sjá að þegar meðalávöxtun eigenda á smásöluverslun í nágrannalöndum okkar er á bilinu 8–11% er hún á Íslandi 30–40% eða 30–45%, það kemur mjög skýrt fram. Það finnst mér að við getum ekki undanskilið í umræðunni um hagsmuni heimila og hagsmuni fólks og við megum hafa það í huga þegar við ætlum að stilla landbúnaðinum upp sem einhverjum andstæðingi í umræðu um tolla og fyrirætlanir núverandi meiri hluta.

Hinu skulum við heldur ekki gleyma að með margvíslegum hætti má ná fram ágætum breytingum öllum til hagsbóta. Ég tel og hef lengi talað fyrir því að það sé fyrir löngu tímabært að við endurskoðum landbúnaðarstefnu og það hvernig við beitum henni, ekki síst með það í huga hverjum við tryggjum heilnæmi vöru og lýðheilsu. Ég ætla ekki lengra út í þá umræðu að þessu sinni. En það má líka gagnrýna þetta frumvarp og við munum sitja undir því í fjárlaganefnd næstu vikur að hlusta á ábendingar og gagnrýni. Ég kinoka mér ekki við því og hef á því ákveðnar skoðanir. Þó að ég tilheyri stjórnarmeirihluta hef ég ákveðnar skoðanir á sumum þáttum sem þar eru inni. Eins og fram hefur komið í umræðu hér held ég að það muni standa talsvert mikið upp úr sveitarstjórnarmönnum, þegar þeir hitta okkur, að tala um vegamál. Það er staðreynd að við fyrstu stórrigningar þessa hausts sátu skólabílar fastir úti í sveitum af því að viðhald vega er ófullnægjandi. Skólabörn hristast á holóttum vegum. Það er ekki lengur efni í vegunum til að hefla þá. Þetta eru allt saman verkefni sem við þurfum að setja enn sterkara kastljós á og vinna markvissar að því að leysa. Með því er ég ekki að gagnrýna hæstv. innanríkisráðherra eða Vegagerðina. Það hefur einfaldlega verið spilað úr þeim fjármunum með því besta móti sem mögulegt er hverju sinni, en þetta er sannarlega verkefni og er eitt af því sem við getum örugglega gefið okkur að verði hluti af þeirri gagnrýni sem höfð verður uppi á fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp.

En annar málaflokkur hefur verið nefndur hér og hefur nafn mitt verið tengt við hann, þ.e. fjarskiptamál. Í fyrsta í mjög langan tíma gafst færi á því á yfirstandandi fjárlagaári að leggja fjármuni til úrbóta í fjarskiptum, fyrst og fremst til að fjármagna þær áætlanir sem birst höfðu í ályktunum Alþingis um fjarskiptaáætlun, svokölluðum hringtengiverkefnum sem var m.a. hrint í framkvæmd nú í sumar. Í fjárlagafrumvarpinu eru áfram tryggðir fjármunir til úrbóta í fjarskiptamálum og þó svo að þar sé ekki aukið í frá afgreiðslu Alþingis á síðasta ári vona ég að á þessu hausti komi fram áætlanir núverandi stjórnvalda eða tillögur til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun sem innifela það átak sem við höfum lengi beðið eftir að líti dagsins ljós, sem miðar að því að bæta búsetuskilyrði fólks með tilliti til fjarskipta. Það eru margir stórmerkilegir hlutir að gerast í þeim efnum, ekki síst viljum við eiga samleið með orkufyrirtækjum og bara til að gefa þingheimi hugmynd um hvað við erum að tala um í þeim efnum vil ég hér í lok ræðu minnar nefna tilboð í verkefni sem miðar að því að hringtengja Vestfirði. Með því að leita samstarfs við Orkubú Vestfjarða í þeim efnum varð endanlegur verksamningur um það verk ekki nema 30% af upphaflegu verði í kostnaðaráætlun þar sem menn bera nú loksins gæfu til að vinna saman að uppbyggingu innviða.