145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:18]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að auðvitað voru líka hækkaðar greiðslur í þessa framleiðslu, á papriku, gúrkum og tómötum, á sínum tíma en verðið lækkaði. Ég man eftir þessum tíma; ég keypti varla papriku vegna þess að kílóverðið var eins og ígildi gulls. Verðið lækkaði og við það jókst neyslan þannig að það hafði klárlega áhrif. Svo hef ég efasemdir um að lítil þjóð eins og Ísland geti haft einhvern styrk í milliríkjasamningum þegar við semjum við aðrar þjóðir um tollalausan útflutning á okkar vörum.

Það sem mig langaði að spyrja um í seinna andsvari er ljósleiðaravæðingin sem hv. þingmaður þekkir vel. Ég sé ekki í fljótu bragði að settir séu einhverjir fjármunir á fjárlögum næsta árs í það verkefni að ljósleiðaravæða byggðir landsins. Ég held að við séum sammála og örugglega allir landsbyggðarþingmenn um að það sé eitt brýnasta byggðamálið og eitthvað sem við getum ekki beðið mikið lengur með. Þetta er farið að hafa áhrif hér og nú á búsetu, starfsmöguleika, nám og annað. Ég veit ekki hvort ég hef misskilið eitthvað en ef ekki er sett tiltekið fjármagn í þetta verkefni, eru það ekki vonbrigði?