145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:24]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir áhyggjur þingmannsins, ég er sammála henni um að það munu örugglega mörg sveitarfélög færa inn athugasemdir til fjárlaganefndar í umsögn um fjárlagafrumvarpið um fjarskiptamál og samgöngur. Hvort sveitarfélög verði fyrir vonbrigðum með þá fjárlagatölu sem nefnd er, um það ætla ég ekkert að segja. Ég held að það skipti samt miklu máli að á þessu hausti komi fram einhver sýn á hvernig við ætlum að vinna í þessum málum. Ég er sammála þingmanninum um að við getum ekki beðið mikið lengur með að búa til þá sýn og að því mun ég vinna. Ég veit að í þinginu er breið og góð samstaða um að vinna í þá átt.

Ég er ekki tilbúinn að segja nákvæmlega hér og nú að ég muni leggja fram þessa tillögu eða hina tillöguna um að setja fjármuni í innanlandsflug til að greiða það niður. Ég held að það sé einfaldlega ekki tímabært á þessu stigi að úttala sig með beinum hætti um slíkar tillögur. Ég vil minna á að að frumkvæði fjárlaganefndar í fyrra í umfjöllun um fjárlagafrumvarpið lagði nefndin til breytingartillögur er miðuðu að því að endurbæta flugvelli. Það hefur komið fram í störfum fjárlaganefndar að við þurfum að fá ákveðna skýrslu um það hvernig þeirri tillögu hefur reitt.

Hv. þingmaður nefndi hið ágæta sveitarfélag Árneshrepp. Við vitum að þar hafa orðið stórkostlegar úrbætur, búið er að leggja slitlag á flugvöllinn þar, líklega mestu opinberu framkvæmdir í Árneshreppi í áratugi sem voru í sumar, sem er vel. Við deilum hins vegar algerlega sýn á samgöngumál í sveitum og getum haldið bæði langar og stuttar ræður þar sem skilur ekki á milli okkar í þeim efnum.