145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:28]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í lok ræðu hv. þingmanns um dreifnámið held ég að við getum sagt að þetta er í mínum huga einhver merkilegasta framför sem hefur orðið í starfsemi framhaldsskóla á landsbyggðinni eða fyrir hinar dreifðu byggðir á seinni árum. Við höfum sýnt það í meiri hluta fjárlaganefndar og staðið saman um það í nefndinni að bæta úr fyrir þeim verkefnum sem eru hjá þeim framhaldsskólum sem hafa tekið að sér að reka slíkar dreifnámsstöðvar. Ég held að ég geti vel fullyrt það á þessari stundu að við munum einfaldlega hlusta á skýringar og rökstuðning menntamálaráðuneytisins í fjárlaganefnd fyrir því sem hún nefnir síðan um framlag til framhaldsskóla. Ég tel ekki tímabært á þessu stigi að fella einhvern stóran dóm um það hvort þessi lækkun framlaga sé svo ómöguleg að það beri að mótmæla henni strax við 1. umr. fjárlaga. Til þess skortir mig einfaldlega grunn til að standa á til að lýsa því yfir. En um dreifnámið og málefni framhaldsskóla á landsbyggðinni gilda í raun og veru öll sömu elementin og við höfum verið svo mörg sammála um í þessum þingsal að það eru ákveðnir grunnþættir í samfélaginu og landsbyggðinni sem þurfa að vera í lagi. Framhaldsskólar, fjarskipti, samgöngur, húshitunarmál og slíkir þættir eru byggðamálin. Byggðamál eru ekkert óskaplega flókin. Byggðamál snúast um að skapa íbúum landsins, hvar sem þeir velja sér að búa, frelsi til að geta valið það og í annan stað að við séum að láta þessa grunnþætti samfélagsins virka. Við erum sammála um að halda utan um það að þeir virki fyrir alla, hvar sem þeir búa.