145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst langar mig að nefna það að mér þótti undarlegur tónn í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar áðan. Það var eins og það þyrfti einhverja lagabreytingu til að bæta framsetningu fjárlagafrumvarpsins. Mér finnst menn vera að seilast ansi langt í að koma sér hjá því að gera það vegna þess að það er mjög einfalt að taka ákvörðun um það að opna fyrir hrágögn. Við höfum gert það í fjármálaráðuneytinu, það var gert í tíð síðustu ríkisstjórnar, opnað var fyrir hrágögn og unnið með þau þannig að menn gætu tekið ríkisreikning eða fjárlagafrumvarp eða hvað sem er og unnið með það og sett fram með skýrari hætti en hér er gert. Fordæmin eru til staðar, staðreyndin er hins vegar sú að sú vegferð sem við hófum í fjármálaráðuneytinu við að auka og bæta aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins var stöðvuð af þessari ríkisstjórn. Það er bara þannig. Þetta er bara áhugaleysi og ekkert annað, menn geta ekki skýlt sér á bak við neitt í því.

En að efnisatriðum máls. Ég var ansi spennt að sjá þetta frumvarp þegar hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir og kallaði þetta velferðarfjárlög og í frétt á Eyjunni boðaði hann „mestu framlög til velferðarmála heldur en við höfum nokkurn tíma séð á Íslandi,“ svo ég vitni beint í orð hans, með leyfi forseta. Ég var þess vegna mjög spennt en þegar við skoðum frumvarpið má sjá að þetta eru algjör öfugmæli. Þess sér hvergi stað að þetta séu mestu velferðarfjárlög nokkurn tímann eða hvað það er sem hann segir um þetta í sínum stóryrðum. Þess sér hvergi stað.

Þegar við skoðum til dæmis bara heilbrigðismálin, af því að ég hef lítinn tíma, þá hélt ég að við værum öll sammála um að þar þyrfti að fara að gefa í og það hressilega, en hvað gera menn í þessu frumvarpi? Hér birta þeir stefnu sína hvað það varðar. Hvað erum við með hér? Við erum með nærri því 1,2 milljarða sem eru aukning til sérfræðilækna og svo erum við með niðurskurð á Landspítalanum að raungildi, niðurskurð upp á 90 millj. kr. Eru þetta velferðarfjárlög? Hvar eru framsóknarmenn í þessari umræðu? Það er verið að skera niður á Landspítalanum og það kemur enginn framsóknarmaður hingað upp og talar fyrir þessu fjárlagafrumvarpi. Þeir leggja ekki í það vegna þess að öfugmælin eru slík. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að það eru öfugmæli að kalla þetta velferðarfjárlög þegar textinn segir okkur hreint út varðandi Landspítalann að þar sé beinlínis verið að lækka framlög að raungildi um 90 milljónir auk þess sem ekki hefur verið tekið tillit til niðurstöðu gerðardóms, það kom fram í morgun. Og hvernig ætla menn að bæta spítalanum það upp? Á hann að taka launahækkanirnar á sinn reikning?

Virðulegi forseti. Þetta geta menn ekki kallað velferðarfjárlög. Viljið þið gjöra svo vel að fara að koma hreint fram og segja bara hreint út að opinbera heilbrigðiskerfið er ekki í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Það er það sem þetta fjárlagafrumvarp sýnir svart á hvítu.

Annað verð ég líka að nefna að það er ekki hægt að kalla þetta velferðarfjárlög þegar við vitum að allt er komið í óefni hvað varðar lyflækningar í landinu og fólk hér, heilu hópar eldri borgara til dæmis, eru með kvóta á því hversu margir geti fengið ákveðið lyf til að koma í veg fyrir ótímabæra blindu. Það er staðreyndin í íslenska kerfinu í dag. Og það er enginn sem getur sagt mér það að ef menn legðu fram velferðarfjárlög væri engin aukning vegna slíkra lyfja. Það er eingöngu örlítil magnaukning en að raungildi er hér lækkun á ferðinni. Eru það velferðarfjárlög?

Við í Samfylkingunni munum gagnrýna þetta frumvarp mjög harðlega og þá sérstaklega velferðar- og heilbrigðishluta þess og munum gera við það fjölmargar athugasemdir. Félags- og húsnæðismálaráðherra kallar þessa ríkisstjórn ríkisstjórn heimilanna, en hvað gerir hún í þessu frumvarpi? Hún lækkar vaxtabætur um 1,5 milljarða, hún lækkar fæðingarorlofið um 221 milljón og barnabætur standa í stað. Það eru kaldar kveðjur til heimilanna í landinu.