145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma aftur hingað upp til þess að ræða tvennt, annars vegar þetta með gjaldmiðilinn. Það er stórmerkilegt að sjá hvaða árangri við höfum náð á undanförnum árum við að rétta efnahag landsins við, ekki síst vegna þess hvað við náðum góðri aðlögun með því að starfa með miklu lægra raungengi. Við unnum okkur út úr stöðunni ekki síst með þeim hætti. Og já, það er rétt að það var á kostnað lífskjara almennings og það gerði mörgum fyrirtækjum mjög erfitt fyrir en við erum komin fyrr aftur á lappir og við höfum bjargað ótrúlegum fjölda starfa með því að vera með okkar eigin gjaldmiðil. Það mætti ræða meira þá staðreynd í tengslum við efnahagsbatann og samanburð við önnur lönd sem hafa ekki þann valkostinn að fella hjá sér gengið eða fá aðlögun í gengismálum með sama hætti og við. Það hefur valdið gríðarlegum vanda fyrir mörg ríki sem starfa með sameiginlegan gjaldmiðil á efnahagssvæðum sem eru að þróast á ólíkan hátt.

Þá að því þegar maður horfir fram á við, hvað við getum gert til þess að draga úr líkunum á því að við förum í gegnum aðrar eins sveiflur. Ég vil nefna að ásamt með opinberum fjárlögum, sem við þurfum að samþykkja á þessu þingi, mér finnst það afar mikilvægt, þarf að breyta rammanum í kringum vinnumarkaðinn. Vonandi dugar mörgum að átta sig á því með því að líta á bls. 32 í fyrra hefti fjárlagafrumvarpsins þar sem við sjáum hvernig launakostnaður á framleidda einingu hefur þróast á Íslandi borið saman við mörg önnur lönd. Þessi þróun mun ekki leiða til neins annars en verðbólgu og verðminni krónu þar með. Ef framboðið á krónum verður meira en við framleiðum í landinu mun ekkert annað gerast en að (Forseti hringir.) krónan mun falla í verði. Þetta tvennt, samþykkt laga um opinber fjármál og breyting á umgjörð vinnumarkaðarins, er að mínu áliti forsenda þess að við byggjum undir frekari stöðugleika.