145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hún er glöð á góðum degi, glóbjart liðast hár um kinn. Ég vil nú síst spilla þeirri gleði sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir lýsti hér áðan yfir fjárlagafrumvarpinu. Það er margt gott hægt að segja um það og síðan get ég trúað hv. þingmanni fyrir því að það er líka ákaflega margt sem ekki gleður mig í því.

Hér hafa miklu vísari menn en ég vélað um þetta mál í dag. Eins og komið hefur fram hafa ræflar eins og ég takmarkað málfrelsi í þessari umræðu svo að ég ætla að leyfa mér þann munað að spyrja hv. þingmann einungis út í eitt mál sem hv. þingmann varðar því að hún er formaður allsherjarnefndar og það eru málefni flóttafólks.

Hv. þingmaður situr með mér í þverpólitískri nefnd um þau málefni og er raunar einn af burðarásunum í þeirri nefnd og það samstarf hefur verið ákaflega merkilegt og gott meðal hinna ólíku þingflokka. Þetta er málaflokkur sem fáum þykir vænt um, hv. þingmanni þykir vænt um hann, ég sé það af samstarfinu við hana. Mér þykir vænt um hann en ég veit af langri reynslu að hann liggur oft lítt bættur utan garðs.

Þegar ég les þetta fjárlagafrumvarp og fer yfir það rek ég horn mín strax í það að það er alveg sama hvar er borið niður varðandi málefni flóttamanna, mér virðist alls staðar vera mjög þröngt skorinn stakkur. Ég nefni tvennt til dæmis. Ég fann ekki hvar á að taka fjármagn til að standa straum af móttöku kvótaflóttafólks, a.m.k. 25 koma hér á næsta ári samkvæmt ákvörðun sem liggur fyrir. Ég sá ekki hvaðan á að taka peninga til að kosta móttökumiðstöðina sem þegar hefur tekið til starfa. Þeir þrír aðrir höfuðliðir sem þetta varða, ég mundi segja að það vanti í öllum tilvikum talsvert háar upphæðir til þess að það gangi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hún ekki uggi slegin yfir framtíð þessa málaflokks eins og hann virðist vera teiknaður upp í fjárlagafrumvarpinu?