145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir mína parta þá var þetta kannski besta ræðan sem hér hefur verið flutt í dag. Ég hef hlustað á alla umræðuna og þetta er svona vanabundin umræða, að vísu óvenjuleiftrandi í dag. En mér þótti vænst um þetta svar.

Ég tel að þessi málaflokkur sé í svolitlum háska staddur. Það skiptir mjög miklu máli að um hann skapist samstaða. Sú samstaða hefur skapast í þingmannanefndinni, og það stappar raunar kraftaverki næst hversu mikil samstaða hefur verið þar um málefni sem eru meðal þeirra erfiðustu sem rekur á fjörur stjórnmálamanna nú um stundir.

Mér finnst gott að hv. þingmaður lýsi því alveg skýrt yfir að þrátt fyrir óslökkvandi gleði sína yfir frumvarpinu sé það þó ekki að öllu leyti fullkomið. Ég tek að minnsta kosti undir með hv. þingmanni, að hvað þetta varðar er það afar ófullkomið.

Ég er ekki að segja það til að efna til deilna um þetta vegna þess að um nákvæmlega þennan málaflokk tel ég að menn eigi að deila sem minnst. Ég vil hins vegar benda á þetta, hv. þingmaður segir að það sé þarft. Ég tel nefnilega að það sé mjög óheppilegt ef allt í einu kemur í ljós, kannski í fjáraukalögum, hvað þessi kúfur er mikill. Ég gæti trúað hv. þingmanni fyrir því hvað mér reiknast til að hann sé mikill en ég ætla ekki að gera það. Hugsanlega hef ég rangt fyrir mér. En mér þykir hins vegar dapurlegt að í öllum fimm helstu lykilþáttum sem varða móttöku flóttamanna og varða getu okkur til að standa undir þeim skuldbindingum einum sem við höfum skrifað undir, ekkert umfram það, jafnvel þó að engir kvótaflóttamenn kæmu, tel ég að það vanti alveg stórkostlega mikið upp á að við náum að standa undir þessum skyldum.

Ég er hins vegar sannfærður um það eins og hv. þingmaður að hæstv. ríkisstjórn er með stefnu sem er jákvæð í málinu og ég fagna stofnun ráðherranefndarinnar. En við verðum samt að sjá glitta í að ráðherranefndin komi með tillögur sem verða líka fjármagnaðar af hæstv. fjármálaráðherra, eða að minnsta kosti með góðu leyfi hans.