145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka hæstv. fjármálaráðherra kærlega fyrir svörin um hugmyndina um að flýta því um einn vetur að opna Norðfjarðargöng. Ég fagna því alveg sérstaklega. Þetta snýst að vísu ekki eingöngu um að nýta betur tækin á staðnum og allt það, þetta snýst eiginlega um það hvort fjárflæðið frá Vegagerðinni, frá ríkissjóði, til verktakans yrði aðeins aukið, e.t.v. samið við verktakann um að greiðslur kæmu aðeins seinna fyrir einhvern hluta. Það er list að semja sig að niðurstöðu þannig að taka megi göngin í notkun haustið 2016 áður en vetur gengur í garð. Það yrði til mikilla bóta að losna við þann erfiða þröskuld sem Oddsskarðið er að vetri til þar sem meðal annars starfsmenn frá Fjarðaáli hafa setið fastir á aðfangadagskvöld og ekki komist til síns heima fyrr en undir jóladagsmorgun. Þetta yrði til mikilla bóta. Ég fagna þessu alveg sérstaklega og tel að mín fimm mínútna vera í umræðu um fjárlög hafi þegar skilað töluverðum árangri.

Um samgöngumál almennt er sú umræða sem hæstv. fjármálaráðherra setti fram, sem er um áætlun opinberra fjárfestinga, í sjálfu sér alveg hárrétt. Við þurfum að vega og meta. Það má heldur ekki vera of mikið. Við skulum hafa það í huga að ríkið, það hefur oft verið talað um það, þarf að draga aðeins úr á miklum þenslutímum og auka við á krepputímum. Það gerðum við í síðustu ríkisstjórn þar sem Íslandsmet voru slegin ár eftir ár í framkvæmdum í samgöngumálum. En sumir staðir eru bara þannig að þeir geta ekki beðið. Þeir eru að biðja um framkvæmdir árin 2015–2020 sem voru sjálfsagðar í öðrum landshlutum 1970–1980. Það er það sem við þurfum að skoða. Við þurfum að forgangsraða.

Ég ætla hiklaust að tala um að ég er mjög ánægður (Forseti hringir.) með þau skref sem er verið að stíga hvað varðar Landspítalann, ég tel eitt brýnasta verkefnið í opinberum framkvæmdum að drífa í að byggja nýjan Landspítala.