145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra leggur þetta mál fram. Formaður Framsóknarflokksins kallaði þetta stórkostleg velferðarfjárlög. (Gripið fram í: Rétt.) Hann var ægilega stoltur af því. Í þessum stórkostlegu velferðarfjárlögum er boðaður niðurskurður til Landspítalans. Í þessum stórkostlegu velferðarfjárlögum er engin aukning vegna S-merktra lyfja þrátt fyrir að við vitum vel að þar þarf aldeilis að gefa í. Í þessum velferðarfjárlögum eru vaxtabæturnar skornar niður um 1,5 milljarða, fæðingarorlofið er lækkað um 221 millj. kr. Velferðarfjárlög, það er aldeilis.

Málflutningur eins og hv. þingmaður var með hér áðan er ekki boðlegur, hann þekkir ekki innviði frumvarpsins ef hann heldur því fram að menn séu hér í einhverri stórsókn á sviði heilbrigðismála vegna þess að staðreyndirnar og tölurnar tala sínu máli.