145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því mjög að hv. þingmaður, eini framsóknarmaðurinn sem kemur í umræðu um fjárlög fyrir árið 2016, skuli koma í ræðu og að við getum átt orðastað við hann. Hann talaði um að nú væru heimilin og velferðin sett í forgang. Já, við getum tekið eitt dæmi sem birtist um daginn. Það er stærsta skuldaleiðréttingin, það er heimsmetið að ríkisstjórnin hefur gefið eftir af skuldum þrotabús Glitnis um 170 milljarða og fær eingöngu 200 milljarða. Þetta er stærsta skuldaleiðrétting sem framkvæmd hefur verið af hæstv. ríkisstjórn og ég gerði mér ekki grein fyrir því að það var þetta sem hæstv. forsætisráðherra var að boða fyrir kosningar.

Mig langar í þessu stutta andsvari að spyrja hv. þingmann, af því að hann talar um innviðastyrkingu: Er hv. þingmaður ánægður með þær framkvæmdir sem á að ráðast í í vegamálum? Það er nánast ekki neitt og í tveggja ára tíð þessarar ríkisstjórnar hefur ekki eitt einasta nýtt verk verið sett í gang. (Forseti hringir.) Og af því að hv. þingmaður hældi sér mjög af 500 millj. kr. arðgreiðslu frá Isavia fyrir þetta ár sem sett var í framkvæmdir þá er það skorið niður í þessu frumvarpi. Hvernig stendur á því og hvað segir hv. þingmaður um það?