145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:05]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi samgöngumálin og innviðastyrkingu þá stend ég við það sem ég hef sagt hér. Ég hef kallað eftir því að við veitum aukið fjármagn í samgönguframkvæmdir í hinum dreifðu byggðum. Ég vonast til þess að hv. þm. Kristján L. Möller verði mér sammála um það og ég held að við hv. þingmaður deilum þeirri sýn varðandi byggðamálin almennt að þau þurfi miklu veigameiri sess í almennri umræðu og þvert á stjórnmálaflokka vegna þess að ég held að oft og tíðum skorti ákveðinn skilning á byggðamálunum hjá þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum auðvitað að reyna að komast áfram með þá umræðu og reyna að fá fleiri til liðs við okkur hvað það snertir.

Varðandi síðan innanlandsflugvellina var það stjórnarmeirihluti í síðustu fjárlaganefnd sem ákvað að flytja fjármagn af arðgreiðslum yfir á innanlandsflugvelli, eitthvað sem hafði verið búið að veltast um í kerfinu í fleiri og fleiri ár hvernig ætti að framkvæma og hvernig ætti að leysa. Það er að sjálfsögðu eitthvað … (Gripið fram í.) Fjárlaganefnd gerði þetta á síðasta þingi og það er eitt af því sem þarf að skoða í frumvarpinu núna þegar það fer til fjárlaganefndar, rétt eins og staða öryrkja og aldraðra, rétt eins og heilbrigðismál, velferðarmál, samgöngumál o.fl. Við tæmum þessa umræðu ekki hér í dag. Þetta er rétt að byrja. Frumvarpið verður afgreitt rétt fyrir jól.