145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi vaxtamun, ránsvexti, svo ég noti orðalag hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, og þá staðreynd hvernig bankarnir hafa verið að taka og skila tugmilljarða hagnaði á hverju einasta ári, þá hlýtur maður aðeins að velta fyrir sér, áður en ég kem að spurningunni, af hverju fyrrverandi ríkisstjórn hafi ákveðið á sínum tíma að afhenda alla vega tvo af þessum bönkum til vogunarsjóðanna (Gripið fram í.) vegna þess að það var ekki eitthvað sem þurfti að gera. Á þeim tímapunkti hefðum við auðvitað strax eftir hrunið átt að taka umræðuna um það hvernig við ætluðum að skipuleggja fjármálakerfið til framtíðar til að tryggja hér samkeppni á markaði o.s.frv.

Varðandi spurninguna um Landsbankann og það sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur verið að koma inn á og viðra í útvarpsviðtölum og greinum, þá verð ég að koma inn á það í seinna andsvari mínu og ég mun ekki skorast undan því þar.