145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ekki burðugt svar hjá hv. þingmanni sem nýlega hefur stigið til þeirrar tignar að vera treyst fyrir því að stýra þingflokki Framsóknarflokksins. Hinn nýi formaður þingflokks framsóknarmanna hefur ekki meiri og sterkari bein en þau að hann treystir sér ekki til að lýsa afdráttarlausum stuðningi við stefnu síns eigin flokks. Þó greiddi hann atkvæði með því að Landsbankinn yrði gerður að samfélagsbanka. Nú er það allt í einu smækkað yfir í það að vera einhver hugmynd sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson er að viðra í fjölmiðlum. Annaðhvort er þetta stefna Framsóknarflokksins eða ekki. Annaðhvort stendur Framsóknarflokkurinn í lappirnar eða ekki. Annaðhvort hefur hv. þm. Ásmundur Einar Daðason burði til þess að vera trúr þeirri sannfæringu sem hann greiddi atkvæði eða ekki. Mér sýnist hér að við fyrstu áraun er hv. þm. Ásmundur Einar Daðason að heykjast undan ábyrgð sinni sem flokksmaður í Framsóknarflokknum og enn einu sinni að láta Sjálfstæðisflokkinn koma sér niður á hnén.