145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

viðvera forsætisráðherra í fjárlagaumræðu.

[10:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er farinn að hafa svolitlar áhyggjur af sjálfum mér. Ég er farinn að hneigjast æ meir að því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafi rétt fyrir sér. Hún segir að við eigum að læra af reynslunni og reyna að nota fortíðina og reynslu hennar til að búa til frið og sátt í þessu þingi. Þá er ég ekki viss um að við séum sameinuð að því markmiði að það sé rétt að krefjast þess að forsætisráðherra komi hér til þingsins.

Ég get líka sagt alveg hreint út að ég sætti mig alveg við það að vera bara boðið upp á hæstv. aðstoðarforsætisráðherra sem hér situr í salnum til þess að ræða við hann um ýmis málefni. Það sem ég vildi þó bera upp við hæstv. forseta eru málefni Þingvallaþjóðgarðs. Mér eru þau málefni hugleikin, ég hef setið í Þingvallanefnd í 15 ár og á hverju þingi hef ég flutt hér þingmál sem tengjast honum. Ég vildi gjarnan ræða við yfirvald um fjárveitingar til hans. Nú ætlar forsætisráðherra ekki að koma til þings til þess að ræða það, málið er undir honum og því spyr ég hæstv. forseta: Má ég þá beina mínum spurningum til forseta sjálfs í staðinn?