145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

viðvera forsætisráðherra í fjárlagaumræðu.

[10:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er alveg hjákátlegt hvað sumir hv. þingmenn meiri hlutans eiga erfitt með það að hér geti þingmenn stjórnarandstöðunnar yfir höfuð talað. Við höfum bent á og komið fram með ósk, hér er ekkert brjálæði í gangi, hér er ekkert málæði í gangi eins og það var kallað, ég nýtti ekki fullan tíma síðast, en talað er um málæði. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason talar um málefnaþurrð í gær, hann fer að tala um umræðuna í gær, fer að láta eins og þetta sé aðalmálið. Þetta er bara vinsamleg beiðni en eins og venjulega þegar koma vinsamlegar beiðnir til hæstv. forsætisráðherra eða þingmanna hans er brugðist við eins og hér sé einhver óður hundur að gelta á hv. þingmenn meiri hlutans. Hv. þingmenn geta slappað aðeins af og tekið þátt í umræðunum eins og aðrir þingmenn.

Maður getur spurt sig: Hverjar voru líkurnar á því að hæstv. ráðherra hefði, ekki út af reglum heldur almennri kurteisi, virðulegi forseti, gefið okkur smátíma til að ræða þá málaflokka sem hann varða? Líkurnar voru engar vegna þess að það er þessi hæstv. forsætisráðherra.