145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að koma hingað og ræða þau mál sem heyra undir innanríkisráðuneytið og eru til umfjöllunar hér við gerð fjárlaga. Ég held að það sé mjög mikilvægt að einstakir ráðherrar hafi tækifæri til að tala við þingið um þessi álitamál. Mér finnst þessi nýbreytni, a.m.k. hvað mig varðar, þetta er fyrsta skipti sem ég er viðstödd umræðu af þessum toga, vera mjög til bóta.

Ég vil þá gera grein fyrir málefnum innanríkisráðuneytisins. Útgjöld ráðuneytisins aukast nú um tæpa 2,2 milljarða kr. á föstu verðlagi fjárlaga ársins 2015, sem svarar 2,8%. Þegar einnig er tekið tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um tæpa 4,8 milljarða, sem samsvarar 6,2%, og verða því rúmir 80 milljarðar á árinu 2016.

Útgjaldabreytingu milli ára má skipta í fimm þætti. Í fyrsta lagi er um að ræða ýmsar breytingar á fyrirliggjandi útgjaldaskuldbindingum sem falla til á árinu 2016, þær nema alls tæplega 2,4 milljörðum. Þar munar mest um 814 milljónir sem er lögbundið framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, 800 millj. kr. framlag til Vegagerðarinnar til að mæta auknum kostnaði við vetrarþjónustu og 640 millj. kr. tímabundnu framlagi til Vegagerðarinnar vegna vegtengingar við iðnaðarsvæðið á Bakka, 270 millj. kr. til málskostnaðarliðar í opinberum málum í samræmi við raunniðurstöðu mála fyrir dómstólum og tæpum 270 millj. kr. til að mæta kostnaði við komandi forsetakosningar. Á móti lækka framlög til öryggis- og varnarmála um tæpar 800 milljónir enda færist það yfir til utanríkisráðuneytisins. Í öðru lagi falla niður nokkur tímabundin framlög. Í þriðja lagi eru rekstrarfjárveitingar stofnana og verkefna sem heyra undir ráðuneytið lækkaðar um 311 milljónir vegna áforma um hagræðingu í rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Þá eru framlög í ný eða aukin verkefni tæpar 1.800 milljónir en þar munar mest um stofnun embættis héraðssaksóknara en ráðuneytið ráðstafar rúmum 500 millj. kr. til að koma því embætti á fót, sem er að mínu mati afskaplega mikið framfaramál. 325 milljónir til hækkunar málsvarnarlauna, 250 milljónir vegna Vegagerðarinnar og 175 milljónir vegna tímabundins framlag vegna hælisleitenda, en ég mun fara sérstaklega yfir þann lið á eftir.

Ég vil nota tíma minn til að leggja sérstaklega áherslu á gjörbreyttar forsendur vegna málefna hælisleitenda. Í frumvarpinu er ráðgert að framlög vegna málefnisins hækki um tæpar 200 milljónir, en það er nauðsynlegt að endurskoða þær tölur núna. Jafnframt þarf að endurskoða fjárveitingar til Útlendingastofnunar og kærunefndarinnar. Við stöndum í raun frammi fyrir nýjum veruleika og það er mikilvægt að fjárlögin taki mið af honum. Tölurnar tala sínu máli. Þegar hafa borist 170 umsóknir um hæli á þessu ári og ef svo heldur fram sem horfir getur talan hæglega farið upp í 300 umsóknir á árinu, en heildarfjöldinn í fyrra var 175.

Unnið hefur verið að því síðustu ár að stytta meðferðartíma vegna umsóknanna. Skjótvirk málsmeðferð er mikilvæg fyrir umsækjendur sjálfa en getur auk þess sparað verulega fjármuni fyrir ríkissjóð. Það náðist ákveðinn árangur á síðasta ári en því miður sjáum við að meðferðartíminn er aftur farinn að lengjast vegna þess álags sem er á kerfinu.

Við höfum þegar brugðist við breyttum veruleika eins og við höfum getað á þessum stutta tíma. Þetta hefur gerst óskaplega hratt, ágústmánuður sker sig algjörlega úr. Í morgun samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að veita nú þegar 50 millj. kr. aukafjármagn til Útlendingastofnunar til að reyna að ná tökum á þessum vanda.

Ég ítreka, og bið um leið um liðsinni þingsins í því, að nauðsynlegt er að endurskoða þessar fjárhæðir í frumvarpinu við 2. umr. Það er augljóst að þær tölur sem frumvarpið ber með sér eru í engu samræmi við þá þörf sem fyrir liggur og þótt ráðuneytið hafi með góðum vilja reynt að bæta verulega í miðað við forsendur í vor gátum við með engu móti séð fyrir þá breytingu sem hefur orðið.

Samgöngumálin skipa auðvitað sinn sess í forgangsröðun ráðuneytisins. Við hækkum heildarfjárveitingu til þess málaflokks um tæpar 1.300 millj. kr. að raungildi frá síðustu fjárlögum. Nokkuð vantar þó upp á að við náum að mæta fjárhagslegum markmiðum samgönguáætlunar eins og hún var lögð fram í drögum í vor og það eru að sjálfsögðu vonbrigði. Ég mun leggja fram nýja samgönguáætlun á næstu vikum og þar mun árið 2016 líta með nokkuð öðrum hætti út. Það þýðir auðvitað að við þurfum að draga úr þeim verkefnum sem við höfðum áætlað að fara í. Þannig er það bara, við erum að forgangsraða í ríkisfjármálum. Við erum að forgangsraða í þágu velferðarmála og við erum að sjálfsögðu líka að mæta kjarabótum sem samþykktar voru hér í vor. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á rekstur ríkisins og innanríkisráðuneytið tekur þátt í að mæta þeim breytingum.

Þá eru þessar 774 milljónir sem ég nefndi vegna héraðssaksóknara þar sem 500 koma frá ráðuneytinu með nýju fé en við færum síðan aðra fjármuni á milli þannig að embættið fær 774 milljónir að okkar tillögu til að hefja rekstur. Hér er um að ræða mikla styrkingu á ákæruvaldinu og aukið réttaröryggi fyrir borgarana. Ég tel að þetta sé mjög mikið framfaramál.

Það er ómögulegt fyrir mig að fara mjög ítarlega yfir þetta en við getum talað um þetta betur á eftir. Ráðuneytið er að sjálfsögðu reiðubúið, og ég, til að taka hvenær sem er umræðu um þau málefni sem undir ráðuneytið heyra. Ég vil nefna að það eru engin breytingaráform um Vestmannaeyjaferju, það eru engir fjármunir veittir í ferjuna en það liggur að baki skýr vilji ríkisstjórnarinnar til að í það verkefni (Forseti hringir.) verði farið og að því er unnið í ráðuneytinu.

Ég bið þingið, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að líta sérstaklega til þess viðkvæma málaflokks sem hælisleitendur eru undir ranni (Forseti hringir.) innanríkisráðuneytisins og bið þingið að líta góðfúslega á þann málaflokk.