145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um áðan ráðgerði ráðuneytið þegar tillögurnar voru lagðar fram af hálfu ráðuneytisins seint í vor, snemmsumars, að verja töluvert auknu fé til hælisliðarins, vel á annað hundrað milljónum króna. Síðan kom í ljós um miðjan ágúst að það voru engan veginn nægir fjármunir og ég var sú fyrsta til að vekja athygli á því að bæta þyrfti þar í og jafnframt að ég mundi berjast fyrir auknum fjármunum að því leyti.

Ég tek auðvitað undir þau orð sem hv. þingmaður nefndi varðandi Útlendingastofnun. Þar er unnið mjög gott starf. Við lögðum til aukið fé til hennar í fyrra til að mæta þeim hala sem hún var að glíma við, héldum að við gætum náð betri árangri en við höfum náð en það tókst ekki og það er ekki síst þess vegna sem ég óskaði í morgun eftir 50 millj. kr. til viðbótar til að takast á við þann vanda.

Skýringar eru náttúrlega nokkrar fyrir hendi. Ég get auðvitað ekki skýrt alla hluti en ég get þó skýrt það að hluta til með þeim hætti að um áramótin tók við nýtt úrræði, þ.e. kærunefnd útlendingamála, og það hefur tekið hana, eðlilega, nokkurn tíma að koma sinni vinnu í jafnvægi. Það hægði nokkuð á úrskurðum á fyrri hluta ársins meðan ráðuneytið hafði í lok síðasta árs loksins, vil ég segja, náð nokkrum tökum á því að mæta þeim fjölda sem þá hafði leitað til ráðuneytisins um úrskurð æðra stjórnvalds.

Allt er þetta eðlilegt en þýddi það að aukna fjármuni þurfti og sú von ráðuneytisins að hraðar gengi gekk hreinlega ekki eftir. Þess vegna er það skylda mín að vekja athygli á því við þingið og óska enn og aftur eftir því að þingið líti góðfúslega á þetta. Ég veit og finn og þakka hv. þingmanni fyrir þann skilning sem hann hefur á þessum málaflokki. Á sama tíma vil ég segja að það verður aldrei hægt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir hvernig þessi fjöldi liggur. Þetta verður alltaf pínulítið talað út í loftið hjá okkur (Forseti hringir.) en ég held að í þessu tilliti núna og kannski á ágústmánuður að kenna okkur að við eigum að gera frekar ráð fyrir rýmri fjárheimildum en takmarkaðri.