145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Í fyrra komu 173 umsækjendur um alþjóðlega vernd til Íslands. Það var árið 2014. Málaflokkurinn samkvæmt ríkisreikningi kostaði þá 463 milljónir. Það var séð löngu fyrr á þessu ári að bara á því ári færi það töluvert langt fram yfir það. Við getum þá gert ráð fyrir því að á næsta ári að verði að minnsta kosti að gera ráð fyrir hinu sama, auðvitað meiru vegna þess hvernig ástandið er, en samt er bara gert ráð fyrir 475 millj. kr. Það er eiginlega búið að ráðstafa nær því öllu. Tvisvar sinnum 200 millj. kr. fara í tvo samninga við Reykjavíkurborg og Reykjanesbæ sem hvor um sig tekur að sér 70 umsækjendur. Þá eru eftir 75 milljónir til að sjá um alla hina. Þá sjá menn í hvaða óefni stefnir fjárhagslega.

Miðað við tölurnar sem hæstv. ráðherra gaf hérna áðan mætti að óbreyttu, miðað við að ástandið verði óbreytt og aukist ekki á næsta ári, draga þá einföldu ályktun að það vanti 475 milljónir hið minnsta.

Ef menn fara síðan yfir þessa liði kemur ákveðin samtala út sem ég ætla ekki að fara með hér til að hrella ekki ráðherrann en hún er ansi há. Ég er ekki að gera (Gripið fram í.) þetta til að efna til einhverra illinda við ráðherrann vegna þess að ég styð hana í viðleitni hennar og ég er þeirrar skoðunar að í þessu máli eigi að reyna að efla eindrægni eins og hægt er. Þetta er þannig málaflokkur og sannarlega mun ég ekki liggja á mínu liði við að reyna að kría út meiri peninga, en ráðherrann verður að fylgja eftir þeim stuðningi sem hún hefur í þinginu með því að stappa niður sínum þunga fæti og hugsanlega skaka hrammi líka gagnvart ríkisstjórninni. Ráðherra getur ekki bara komið og sagt með tárin í augunum við okkur: Hjálpið mér. Hún verður líka að rísa undir sinni ábyrgð og beita sinni þyngd í ríkisstjórninni. Það skiptir höfuðmáli.

Um kærunefndina gæti ég sagt mjög margt, en það virkar auðvitað ekki (Forseti hringir.) andspænis því ástandi sem við erum í núna að vera með kærunefnd sem kemur saman einu sinni á tveggja vikna fresti. Því verður hæstv. ráðherra að kippa í lag.