145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir tölu sína hér áðan. Ég verð þó að segja að það veldur mér og örugglega mjög mörgum fleirum miklum vonbrigðum og áhyggjum raunverulega að hún boðaði samgönguáætlun með mun minna fé en var í þeirri sem var lögð fram í vor. Það má auðvitað spyrja þegar ríkisstjórnin gumar af því að skila hér ríkisfjármálum með afgangi upp á 15 milljarða: Er það raunverulegur afgangur þegar við erum með ófjármagnað vegakerfi, þegar við erum með heilbrigðisþjónustuna ófjármagnaða o.s.frv.?

Mig langar til þess að varpa hér fram nokkrum spurningum og ég veit auðvitað að ráðherra getur tæplega svarað þeim öllum á þeim mínútum sem hún hefur, en það er mikilvægt að það komi fram hér í pontu Alþingis hversu miklum fjármunum verður varið í nýframkvæmdir í vegamálum á næsta ári og hversu miklum fjármunum verður varið í viðhald vega. Hversu mikil fjárveiting fer til hafnarframkvæmda? Hvert fara mestir fjármunir? Á að fara í þjóðveg 1 og um Berufjarðarbotn? Hvenær verða Dýrafjarðargöng boðin út? Ein stór spurning sem síðasta ríkisstjórn ætlaðist aldrei til að yrði tekin af almennu vegafé: Verður viðbótarkostnaðurinn á Bakka tekinn af almennu vegafé?

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um flugið. Er fjármagn í útboð á flugi á óarðbærum flugleiðum tryggt? Er tekin afstaða til og fjármunir veittir í flugið, þ.e. eiga flugfargjöld eftir að lækka á milli sveitarfélaga, Reykjavíkur og landsbyggðarinnar, eins og starfshópur gerði tillögu um? Það er mjög mikilvægt byggðamál. Það er líka mikilvægt að hér komi fram að 500 milljónir verða skornar niður sem ætlaðar voru til uppbyggingar á flugvöllum víða um landið. Ég veit ekki annað en að það sé bara búið að lagfæra flugvöllinn á Gjögri. Stendur til að klára það verkefni á þessu ári? Er það mögulegt? Ef það er ekki mögulegt, ætlar þá ráðherra að sjá til þess að þessar 500 milljónir verði ekki teknar úr því verkefni? Þá er ég hrædd um að það verði fleiri en ég og nokkrir aðrir hér sem rísi upp á afturfæturna og láti í sér heyra. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir samgöngur um alla landsbyggðina.