145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að biðja hv. þingmann að virða mér það til vorkunnar að ég get ekki svarað öllum þessum spurningum núna, en ég mun hins vegar leita svara við þeim öllum og koma þeim til hv. þingmanns.

Ég vil greina hér frá nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi varðandi Bakka er ekki um það að ræða að tekið verði af þeim takmörkuðu fjármunum sem í samgönguáætlun er varið. Eins og hv. þingmenn muna var hér sérstakt mál í vor vegna þess. Ég hef talað mjög eindregið gegn því að menn rugli þessari framkvæmd saman við hefðbundnar samgönguframkvæmdir. Ég get líka látið það koma fram hér að mér líkaði það ekki vel að þetta væri fært undir samgönguáætlun. Það var hins vegar einróma álit þeirra sem gerst þekkja og betur en ég að svo þyrfti að vera, en ávallt var það með mjög stífum fyrirvörum af minni hálfu um það að þetta mætti ekki verða til þess að menn færu að taka af þeim takmörkuðu fjármunum sem hér er um að ræða.

Varðandi Dýrafjarðargöng er engin stefnumörkun af minni hálfu um annað en það að þegar Norðfjarðargöngum sleppir verði farið í Dýrafjarðargöng. Mér er hins vegar skylt að geta þess, og ég vil endilega að það komi fram svo að þingmenn geri sér grein fyrir því, að þeir fjármunir sem settir eru í jarðgöng á ársgrundvelli eru 3,5 milljarðar. Á meðan þeir fara í jarðgöng fara þeir að sjálfsögðu ekki í annað. Engu að síður er engin breyting þar á af minni hálfu. Dýrafjarðargöng eru næst í röðinni eins og þegar hefur komið fram.

Það eru töluvert miklir fjármunir settir í viðhald. Það losar 8 milljarða kr.

Ég vil líka nefna það vegna nýframkvæmda að við ráðstöfuðum tæpum 2 milljörðum á þessu ári í nýframkvæmdir. Þeir fjármunir eru ekki uppurnir og færast að sjálfsögðu yfir á næsta ár og munu nýtast til nýframkvæmda (Forseti hringir.) á næsta ári líka.

Haldið verður áfram með þau áform sem uppi voru um flugvellina, Gjögur, Húsavík og ljósabúnaðinn þar, (Forseti hringir.) en þessar 500 milljónir sem komu í fyrra voru ákvörðun þingsins, einskiptisaðgerð, (Forseti hringir.) en ekki tillögugerð ráðuneytisins. Engu að síður munum við halda áfram með þau verkefni sem við höfum þegar lofað að fara í.