145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Þeir tæpu 2 milljarðar sem ég nefndi við hv. þingmann eru að sjálfsögðu viðbót við þá fjármuni sem þegar var ráðstafað á árinu 2015. Við gerum ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að hluti af þeim peningum verði færðir yfir á árið 2016. Til viðbótar við það er hækkun á fjárframlagi til Vegagerðarinnar upp á tæpar 1.300 millj. kr. Verulegur hluti af því fé fer í viðhald enda er það stefnumörkun mín að leggja mikla áherslu á viðhald vega, einnig nýframkvæmdir en þær eru af skornari skammti. Þess vegna nefndi ég sérstaklega þessar 1.800 milljónir því að þær voru hugsaðar í slíkar framkvæmdir plús þá þær tæpu 300 milljónir sem til viðbótar koma.

Ég legg áherslu á að viðhald vegakerfisins er gríðarlega mikilvægt mál og gríðarlegt öryggismál líka. Það þurfum við að gera miklu betur. Þeir fjármunir nýtast mjög vel. Allar nýframkvæmdir fara strax að telja í hálfum og heilum milljörðum. Í viðhaldi fær maður svo mikið fyrir aurinn þannig að mér finnst það skynsamleg forgangsröðun og tala eindregið fyrir því um leið og ég nefni náttúrlega að það þarf að sjálfsögðu, ég geri ekkert lítið úr því, að fara í miklar nýframkvæmdir líka. Þetta er verkefni sem tekur langan tíma að vinna. Jafnvel þótt við á Alþingi mundum setja tugi milljarða í vegamál, við mundum bara ákveða það einn daginn, þá tæki það okkur töluvert langan tíma að nýta þá fjármuni af því að það er slík planlagning sem þarf í þessa hluti. Þetta gerist ekki á einum degi. Sígandi lukka er líka góð í þessu þótt við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að gera betur.

Varðandi flugið þá stefnum við á útboð núna á styrkta fluginu. Það kom ekki fram í máli mínu hér áður. Við gerum ráð fyrir því að samningar verði endurnýjaðir um áramótin. Ég er ekki með neinar hugmyndir um það að fella niður þá staði sem flogið er á heldur halda áfram með þá staði sem við höfum haft fram til þessa. (Forseti hringir.) Útboð liggur ekki enn fyrir en um áramótin geri ég ráð fyrir að nýir samningar taki gildi.

Varðandi hafnarmálin, örstutt, (Forseti hringir.) þá er algjörlega ljóst að okkur vantar verulega mikla fjármuni í hafnarframkvæmdir. Við erum að fara í verkefni sem eru nauðsynleg (Forseti hringir.) en það þarf að gera miklu betur í hafnarframkvæmdum.