145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:18]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og umræðuna sem hér fer fram. Það sem ég vil byrja á er að taka undir með ráðherra og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og leggja áherslu á að viðbótarfjármagn þarf til málefna útlendinga. Í þeim heimi sem við lifum í núna vantar verulegt fjármagn til að við getum staðið við verkefni okkar á því sviði.

Í þeim málaflokki hefur, eins og fram hefur komið, verið unnið að verulegum umbótum en til að þær skili árangri þarf fjármagn að fylgja til kærunefndar, móttökumiðstöðvar, Útlendingastofnunar, móttöku kvótaflóttamanna, móttöku hælisleitenda og síðan móttöku þeirra sem við afgreiðslu umsóknar um alþjóðlega vernd fá hér stöðu flóttamanns. Ekki meira um þau mál að sinni nema til að leggja áherslu á að þetta er afar brýnt.

Það sem olli mér verulegum vonbrigðum á sviði innanríkisráðherra eru fjárveitingar til samgöngumála. Mér finnst hins vegar gott að heyra að leggja eigi áherslu á viðhald og langar að fá að heyra betur um viðhaldið, hvernig það skiptist á malarvegi og aðra vegi og hvort einhverjar áætlanir eru til um það. Við höfum séð á þessu sumri í því umhverfi sem ég bý á Norður- og Austurlandi að malarvegir þar hafa ekki verið heflaðir fyrr en langt er liðið á ágúst, sumir jafnvel ekki verið heflaðir og aðrir eru hreinlega í því ástandi að ekki er hægt að hefla þá. Um þá vegi þarf fólk að fara á hverjum degi til vinnu, til skóla, það þarf að keyra út póst og svo má lengi telja.

Mig langar líka að spyrja um ljósleiðaravæðingu dreifbýlisins, þ.e. hvenær vænta má áætlunar um forgangsröðun verkefna þannig að hægt verði að áætla kostnað og veita áætlun til verksins. Mig langar síðan að fagna og taka undir með ráðherra. Mér finnst mjög jákvætt að fjármagn til héraðssaksóknara hefur verið aukið. Ég sé ekki betur en að verið sé að auka fjármagn til sýslumannsembættanna og almennrar löggæslu á landsbyggðinni og mundi vilja fá skýringar um það ef tími gefst til. Ég hlakka til vinnunnar sem fram undan er við að gera gott fjárlagafrumvarp enn betra.