145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Eins og þingheimur þekkir hefur verið í vinnu í ráðuneytinu stefnumörkun á fjarskiptasviði, sem hv. þingmaður kom að, sú stefnumörkun að auka öryggi í fjarskiptum um allt land þannig að við getum jafnað, á ég segja búsetu og tækifæri allra landsmanna til að stunda vinnu frá heimilum sínum. Stefnumörkunin er enn þá í vinnslu í ráðuneytinu og verður vonandi kynnt nánar í þinginu á næstunni.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um viðhald vega er það náttúrlega þannig að við vinnum eftir þeirri samgönguáætlun sem er ekki í gildi, ef það mætti orða það svo, þ.e. tillögugerð í samgöngumálum byggir að sjálfsögðu á þingsályktunartillögu þannig að það er ekki svo að einstakir ráðherrar geti á einhverjum tímapunkti umbylt stefnu í samgöngumálum heldur er þetta langtímastefna sem við vinnum eftir á hverjum tíma. Eins og ég hef sagt áður hefur á undanförnum árum verið lögð rík áhersla á viðhald.

Ég get ekki á þessari stundu svarað nákvæmlega spurningum hv. þingmanns um tiltekna tengivegi og slíka þætti að öðru leyti en því að fyrrnefnd stefnumörkun liggur fyrir.

Það var ágætt að hv. þingmaður nefndi löggæslu og sýslumenn. Við höfum lagt aukna fjármuni í þann málaflokk, sýslumennina vegna þess að þegar breytingar urðu hér á skipan mála tókst ekki að manna embættin að fullu á grundvelli núgildandi fjárlaga og vantaði sýslufulltrúa í bæði Fjallabyggð og Fjarðabyggð Mér fannst alveg nauðsynlegt að það yrði tryggt og það er tryggt í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Það skiptir gríðarlega miklu máli að þessi mikilvæga þjónusta í héraði (Forseti hringir.) sé byggð á traustum grunni, það þýðir ekkert að vera með þessi embætti ef menn eru ekki tilbúnir til að veita þeim það fé sem þarf á að halda og þær tillögur sem liggja á borðinu gera ráð fyrir því.