145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir um það að vera ekki að vanáætla heldur setja raunhæfari upphæðir. Ég ætlaði að fagna því og geri það hér með, mér finnst það mjög gott. Við sjáum þetta ítrekað, eins og það sé einhver tilhneiging til að vanáætla, og þótt þetta séu óreglulegir liðir sér maður samt að þetta er oft of lítið. Sama er með vetrarþjónustuna, það þarf að auka í þar.

Mig langar aðeins að spyrja. Ég vona að ráðherra svari mér varðandi neytendamálin á eftir en mig langar líka að spyrja út í fangelsismálin. Ég held að ágætlega sé búið að föngum hér á landi. Ég hef verið að kynna mér þau mál og finnst þau mjög áhugaverð. Mér finnst við geta gert svo miklu betur og held að í rauninni þurfi að móta algerlega nýja stefnu. Hún gæti verið kostnaðarsöm í upphafi en sparað til lengri tíma og er mjög mikilvægt að þverpólitísk sátt sé um þá stefnu. Ég er að hugsa um til dæmis sálfræðiþjónustu, nám fanga og betrunarvist, allt sem felst í því orði, jafnvel fleiri úrræði eins og vernd, sem er miklu ódýrara en öryggisfangelsi. Mér sýnist ekki vera gert ráð fyrir hækkun í þennan málaflokk. Það er vissulega verið að opna nýtt fangelsi sem mun eitthvað að létta á en það eru samt ótrúlega margir fangar sem bíða enn afplánunar. Það er í raun mannréttindabrot þegar fangar eru látnir bíða jafnvel í ár eftir að afplána, komnir með fjölskyldu og í vinnu og þar fram eftir götunum. Mér finnst þetta rosalega brýnn málaflokkur. Ráðherra kom ekki inn á hann en mér þætti vænt um að heyra aðeins um afstöðu hennar neytendamálum og fangelsismálum.