145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra og tek ég undir þau orð, það fólk stendur sig með stakri prýði, enda í raun og veru þörf á því undir þessum kringumstæðum.

Ég átta mig á þessari aðhaldskröfu. Ég hef svo sem sagt það sem ég þarf að segja um hana í sambandi við Fangelsismálastofnun. Mér finnst bara rétt að halda því til haga og ég held að hæstv. ráðherra sé sammála mér um það að starfsmenn innan kerfisins sem meðhöndlar frelsi og réttindi fólks verður að vera almennilega launað að staðaldri óháð álagi.

Það má líka nefna lögreglumenn sem eru bölvanlega illa launaðir að mínu mati og vinna við mjög erfiðar aðstæður og inna af hendi vanþakklátt starf, sömuleiðis starfsfólk Útlendingastofnunar sem við þekkjum öll og síðan fangaverðir og allir aðrir sem vinna á gólfinu með frelsissviptum einstaklingum eða einstaklinga sem hafa mikil réttindi í húfi. Mér finnst með hliðsjón af því að ríkissjóður er ekki lengur rekinn með halla og með hliðsjón af því að farið er að myndast hættuástand víða í kerfinu að þá eigum við alla vega að hætta þessari aðhaldskröfu í bili þar til við erum komin á þann stað sem hæstv. ráðherra nefnir að breyta umgjörðinni, taka í notkun fangelsið á Hólmsheiði o.s.frv.

Það var fleira sem mig langaði að nefna en ég efast um að við höfum tíma til að tala um það í þessari umræðu. Mér finnst tíminn allt of takmarkaður, virðulegi forseti, því að ég ætlaði líka að koma inn á málefni netöryggissveitarinnar, en ég trúi því ekki að mér takist það á nokkrum sekúndum þannig að ég ætla að láta það bíða umræðu um fjárlög.